Rannsókn hnífstungunnar í fullum gangi

Rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi eystra rannsakar nú hnífstunguna sem átti …
Rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi eystra rannsakar nú hnífstunguna sem átti sér stað á Kópaskeri í gærkvöldi. Rannsóknarvinnan er sögð „í fullum gangi“ og segir lögregla að málið sé á því stigi að ekki sé frekari frétta að vænta af framgangi þess um helgina. mbl.is/Eggert

Rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi eystra rannsakar nú hnífstunguna sem átti sér stað á Kópaskeri í gærkvöldi. Rannsóknarvinnan er sögð „í fullum gangi“ og segir lögregla að málið sé á því stigi að ekki sé frekari frétta að vænta af framgangi þess um helgina.

Þrennt er í haldi lögreglu á Akureyri, árásarmaðurinn og tvö til viðbótar, en fólkið var handtekið á Kópaskeri í gærkvöldi.

Fyrr í morgun gaf lögregla út að sá sem varð fyrir árásinni væri á gjörgæslu á Akureyri og að líðan hans væri stöðug.

Fjölmennt lögreglulið sinnti útkallinu á Kópaskeri, en hjálparbeiðni vegna hnífstunguárásarinnar barst kl. 20:53.

Erfiðlega gekk þó fyrir lögreglu að komast sína leið vegna slæms veðurs og ófærðar og voru fyrstu lögreglumenn ekki komnir á Kópasker fyrr en kl. 22:50, samkvæmt fyrri tilkynningu lögreglu.

Sérsveit ríkislögreglustjóra var ferjuð á Kópasker með þyrlu Landhelgisgæslunnar til þess að aðstoða við aðgerðir og lenti þar um kl. 23:40, en einnig liðsinntu björgunarsveitir lögreglu við útkallið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert