Meintur árásarmaður einnig á gjörgæslu

Hvorki hefur verið hægt að yfirheyra meintan árásarmann né brotaþola …
Hvorki hefur verið hægt að yfirheyra meintan árásarmann né brotaþola vegna ástands þeirra og eru þeir báðir á gjörgæsludeildinni á Sjúkrahúsinu á Akureyri, þar sem lögregla er með vakt. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Maður, sem grunaður er um að hafa stungið annan mann á Kópaskeri á föstudagskvöld, er kominn á gjörgæslu á sjúkrahúsinu á Akureyri. Þangað var hann fluttur rænulítill úr fangageymslu lögreglu og er nú á gjörgæslu ásamt brotaþolanum.

Hvorki hefur verið hægt að yfirheyra meintan árásarmann né brotaþola vegna ástands þeirra og eru þeir báðir á gjörgæsludeildinni, þar sem lögregla er með vakt. Frá þessu greinir lögreglan á Norðurlandi eystra í fréttatilkynningu.

Karli og konu sleppt úr haldi í gærkvöldi

Búið er að sleppa karli og konu sem upprunalega voru handtekin á Kópaskeri á föstudaginn, en þau voru yfirheyrð í gær og sleppt í kjölfarið þar sem ekki er talið að þau hafi haft neitt með árásina að gera.

Lögregla segir rannsókn málsins enn á frumstigi, málsatvik liggi ekki enn ljós fyrir, en vettvangsrannsókn sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu annast á Kópaskeri stendur enn yfir. Reiknað er með að henni ljúki í dag.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert