Níunda smitið rakið til Austurríkis

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar …
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar fyrir helgi. Búið er að rekja uppruna allra níu smitanna sem greinst hafa hér á landi, átta má rekja til N-Ítalíu og eitt til Austurríkis. mbl.is/Arnþór

Smit níunda Íslendingsins sem greinst hefur með kórónuveiruna COVID-19 er rakið til Austurríkis. Þetta staðfestir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is. 18 hafa greinst með kórónuveiruna í Austurríki. 

Maðurinn sem um ræðir kom með flugi frá München á sunnudag. Maðurinn er í einangrun. „Hann var á ferðalagi í Austurríki með fjölskyldunni sinni og fjölskyldan er komin í sóttkví,“ segir Víðir, en alls voru þau fjögur saman á ferðalagi. „Við erum að rekja ferðir hans, hann var í samskiptum við fleira fólk. Við vorum að fram á nótt og höldum áfram nú í morgunsárið,“ segir Víðir. 

Alls sæta um 260 Íslend­ing­ar sótt­kví um þess­ar mund­ir, þar af sex starfs­menn Land­spít­ala. Unnið er að því að hafa samband við farþega sem voru í fluginu frá München og eru það líklega um 70 manns að sögn Víðis. Tugir gætu því bæst í hóp þeirra sem nú eru í heimasóttkví. 

Nokkur sýni voru tekin í nótt og morgun og segir Víðir að von sé á niðurstöðum milli klukkan tvö og fjögur í dag. 

Ekki hefur verið ákveðið hvort boðað verði til blaðamannafundar í dag en ákvörðun þess efnis verður tekin fyrir hádegi að sögn Víðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert