„Mestu varðar að verja þá sem eru veikastir fyrir“

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Við glímum við vágest sem ógnar lífi og heilsu fólks. Mestu varðar að verja þá sem eru veikastir fyrir,“ skrifar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á Facbook-síðu sína. Hann hefur sent ástvinum þeirra tveggja sem látist hafa á Íslandi af völdum kórónuveirunnar innilegar samúðarkveðjur.

„Við verðum að fylgja öllum tilmælum og leiðbeiningum í hvívetna. Og við treystum á okkar færa starfsfólk í heilbrigðiskerfinu. Allt það lið á miklar þakkir skildar þessa erfiðu daga,“ skrifar Guðni. 

„Því miður valda nauðsynlegt viðbrögð þungum búsifjum víða í samfélaginu. Við verðum að þola um stund að geta ekki ferðast að vild, verðum að lifa við aðrar hömlur á dagleg samskipti. Allir í ferðaþjónustunni hafa orðið fyrir miklu áfalli og sömuleiðis þeir, sem vinna við verslun og hvers kyns önnur þjónustustörf,“ bætir forsetinn við. 

Hann þakkar starfsliði skóla, allt frá háskólastigi að leikskólum. Fólk í menntakerfinu hafi sinnt störfum af alúð og trúmennsku við erfiðar aðstæður.

„Við erum samfélag og við erum almannavarnir. Enn hvet ég fólk til að gæta ítrustu varúðar og fara að þeim ráðum sem veitt eru hverju sinni, öllum til heilla. Og munum að þakka þeim sem leggja svo mikið af mörkum fyrir okkur hin. Ég óska ykkur öllum velfarnaðar.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert