Öllum steinum verður velt við

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta gekk ágætlega. Það er búið að boða til formlegs fundar á miðvikudaginn eftir viku en við munum hafa vinnufundi og óformlegra samtal fram að því. Við erum að vinna í fleiri heimaverkefnum,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í samtali við mbl.is.

Annar fundur milli samninganefnda Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins, eftir að hjúkrunarfræðingar felldu kjarasamning sem var undirritaður 10. apríl, fór fram í húsakynnum ríkissáttasemjara milli klukkan 10 og 12 í morgun.

Guðbjörg segir að viðræður stefni í rétta átt og að í dag hafi verið farið yfir þau heimaverkefni sem samninganefndum var gert að vinna eftir síðasta fund. Guðbjörg segist ekki getað tjáð sig efnislega um það sem var rætt annað en að allt verði skoðað í komandi viðræðum.

„Það ríkir auðvitað trúnaður okkar á milli á meðan samtalinu stendur en við sögðum í byrjun að öllum steinum yrði velt við og allt yrði skoðað. Okkur er ekkert heilagt í þeim efnum,“ segir hún að lokum.

mbl.is