„Hvar hefurðu verið?“

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, út í ummæli hans um lífskjarasamninginn fyrr í vikunni þar sem hann sagði að forsendur hans stæðu tæpt vegna kórónuveirunnar. 

Þar hafði hann verið spurður út í kjaradeilu Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Halldóra sagði ummælin falla á sama tíma og ríkisstjórnin setji fram hvern aðgerðapakkann á fætur öðrum til bjargar fyrirtækjum og atvinnurekendum. Svigrúmið til þess virðist vera gríðarlegt á meðan svigrúmið fyrir fólk sem sinnir grunnþjónustu í landinu sé ekki neitt.

Spurði hún hvort ráðherra hafi verið að hóta þessum stéttum að ef þau falli ekki frá kröfum sínum í kjaraviðræðum muni hann segja upp lífskjarasamningnum og hvort stjórnvöld ætli ekki að standa við samninginn í komandi fjármálaáætlun.

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hvar hefurðu verið?“ spurði Bjarni er hann steig í pontu. „Átta menn sig ekki á því hvað er að gerast á Íslandi?“ Hann benti á að Ísland sé að tapa á þessu ári, umfram það sem talið var að yrði halli ársins, 250 milljörðum króna.

„Hvar hafa menn verið sem koma hingað upp og spyrja hvaða breyttu forsendur er ráðherrann að tala um? Ég veit ekki hvað ég get gert fólki til hjálpar sem skilur ekki hvað hafi breyst,“ sagði Bjarni og nefndi að lífskjarasamningurinn hafi verið gerður á milli aðila á vinnumarkaði en með stuðningi stjórnvalda. Það sé ekki hlutverk stjórnvalda að segja upp samningnum. Hann bætti við að það sé óraunhæft að fara fram á meira en lífskjarasamningurinn rúmi.

Hann sagði stjórnvöld vera í varnarbaráttu og að reyna að verja það sem var gert í lífskjarasamningum. Það standi tæpt, enda 50 þúsund manns á atvinnuleysisskrá.

Halldóra steig aftur í pontu og kvaðst átta sig á ástandinu. Málið snúist um forgangsröðun. Augljóslega sé ekki verið að forgangsraða þannig að greitt verði mannsæmandi laun fyrir stéttir sem eru þannig gerðar „að samfélagið hrynur án þeirra“. Þessar stéttir séu grunnstoðir samfélagsins og þær þurfi að verja.

Bjarni sagði að halli ársins, „250 til 300 milljarðar“, fari í að verja opinbera þjónustu á þessum erfiðu tímum og að lán séu tekin fyrir öllu saman.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert