Vilja sex stunda vinnudag hjá ríki

Helstu áherslur ASÍ vegna yfirvofandi efnahagslægðar eru að tryggja framfærslu og húsnæðisöryggi. „Ef við tryggjum ekki framfærslu, atvinnuöryggi fólks og húsnæðisöryggi verður þessi kreppa miklu dýpri og miklu alvarlegri heldur en hún þarf að vera,“ segir Drífa Snædal í samtali við mbl.is að loknum kynningarfundi á áherslum Alþýðusambands Íslands vegna kórónukreppunar sem er yfirvofandi.

Hún bendir á að margt megi læra af kreppunni sem þjóðin gekk í gegnum eftir fall bankanna. „Það er einkum húsnæðisöryggið. Það er að segja að við byggjum gott og öruggt húsnæði til langs tíma fyrir fólk á sæmilegum kjörum þannig að húsnæðismarkaðurinn okkar sé ekki sveiflast til og frá eftir efnahagnum.“ Þar er miðað við að fólk greiði ekki meira en fjórðung tekna sinna í húsnæði.

Hins vegar hafi það sýnt sig að mikið mæddi á því starfsfólki sem hafi verið gert að hlaupa hraðar í ástandinu og taka á sig meiri byrðar. „Þá erum við að tala um þær stéttir sem vinna andlega og líkamlega erfiðisvinnu. Ekki síst hjá hinu opinbera,“ segir Drífa og bendir á umönnunarstéttir og afleiðingin sé kulnun í starfi sem hafi orðið of algeng. Þarna vill hún að hið opinbera grípi inn í og stytti vinnudaginn í sex tíma til að vernda hópinn en einnig til að halda atvinnustiginu uppi.     

Í myndskeiðinu er rætt við Drífu og Kristján Þórð Snæbjarnarson, fyrsta varaforseta ASÍ, um áherslur ASÍ. Meðal annars er Kristján spurður út í hvort tímamörk eigi að vera á eignarhlut ríkisins í fyrirtækjum sem fá aðstoð en eins og komið hefur fram leggur sambandið til að ríkið eignist hlut í þeim fyrirtækjum sem fá aðstoð upp á meira en 100 milljónir króna í ástandinu.  

mbl.is

Bloggað um fréttina