„Óviss um hvað borgin ætlar sér með börnin okkar“

Ráðist var í miklar viðgerðir á skólanum fyrir um ári …
Ráðist var í miklar viðgerðir á skólanum fyrir um ári en óljóst er hvort þær hafi dugað til. mbl.is/Hallur Már

„Við erum orðlaus yfir þessari framkomu og skiljum ekki hvernig allir aðilar, hvort sem það eru pólitískir ráðamenn eða embættismenn, geti leyft sér að hunsa borgarbúa með þessum hætti,“ segir Karl Óskar Þrá­ins­son, formaður For­eldra­fé­lags Foss­vogs­skóla. 

Félagið hefur enn ekki fengið nein svör um það hvernig eigi að bregðast við ósk foreldra og starfsfólks um að tekin verði sýni úr húsnæði skólans eins og gert var síðastliðið vor þegar í ljós komu viðamikl­ar skemmd­ir og ráðist var í víðtæk­ar fram­kvæmd­ir í kjöl­farið.

Starfsfólk og börn finna enn fyrir svipuðum einkennum og fyrir framkvæmdir, einkennum sem foreldrar telja að rekja megi til rakaskemmda í húsnæðinu. 

Lak inn á þakið í marga mánuði

Fyrir viku sendi Karl fulltrúum í borgarstjórn og embættismönnum bréf fyrir hönd starfsfólks og foreldra þar sem farið er ítarlega yfir svæði sem þau hafa áhyggjur af og telja bráðnauðsynlegt að skoðuð verði í sýnatöku. Karl segir það af og frá að foreldrar óski eftir því að sýni verði tekin úr nýju efni, eins og sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hefur haldið fram. 

Til dæmis óska foreldrar og starfsfólk eftir því að allt rakaskemmt efni sé fjarlægt úr þaki skólans eftir að lak þar inn „í margar vikur og mánuði eftir viðgerðir.“ Að mati þeirra þarf að opna upp í þakið og skoða, rakamæla og taka sýni úr byggingarefnum þar.

Vilja taka þátt í samtalinu

Einu svörin sem Karl hefur fengið við bréfinu eru þakkir fyrir ábendingarnar sem og loforð um að eitthvað verði gert í málinu. 

„Við höfum heyrt af því að þau hafi verið að tala mikið saman sín á milli en við höfum ekki verið hluti af því samtali og eigum ekki sérstaka von til þess núna einni og hálfri viku síðar,“ segir Karl sem segir jafnframt aðspurður að foreldrar myndu gjarnan vilja vera hluti af því samtali.

„Við stöndum jafn óviss um hvað borgin ætlar sér með börnin okkar næsta vetur.“

Fráveituskurður fullur af gróðri

Í fyrrnefndu bréfi benda foreldrar á að aðstæður í botni Fossvogsdals séu almennt mjög óvinveittar húsbyggingum.

„Um er að ræða djúpa mýri og yfirborðsvatn stórs landsvæðis safnast fyrir þar. Fjöldi íbúðarhúsa í botni dalsins hefur verið endurgerður frá grunni eða hreinlega rifinn sem bein afleiðing af því að ekki var hugað nægilega að aðstæðum við byggingu húsanna. Að okkar mati þarf að gera rækilega könnun og sýnatöku á öllu jarðföstu byggingarefni til að útiloka að í sökklum og grunnplötu skólabygginganna leynist raki sem fæði örveruvöxt í burðarvirki þeirra.“

Þá benda foreldrarnir sömuleiðis á að fullvíst þurfi að vera að drenlagnir umhverfis húsin uppfylli nútímakröfur.

„Einnig er bent á að fráveituskurður Orkuveitunnar fyrir sunnan skólann er fullur af gróðri og virkar ekki lengur sem fráveita yfirborðsvatns. Kópavogsbær sem á landið hefur ekki samþykkt að endurgera hann sem yfirbyggða drenlögn. Þarna er mikilvægt að skera á hnút sem við skiljum ekki af hverju hnýttist.“

Ekki náðist í upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert