Greindust ekki með COVID-19

Mennirnir eru á leiðinni í farsóttarhúsið við Rauðarárstíg.
Mennirnir eru á leiðinni í farsóttarhúsið við Rauðarárstíg. Ljósmynd af Booking.com

Mennirnir tveir sem lögreglan leitaði og fann á hóteli á höfuðborgarsvæðinu greindust ekki með COVID-19, eins og samferðamenn þeirra tveir gerðu í gær. Þetta staðfestir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

Þá staðfestir Víðir einnig að mennirnir sex komu til Íslands með flugi frá London.

Mennirnir verða fluttir í farsóttarhúsið við Rauðarárstíg í miðbæ Reykjavíkur síðar í dag og þangað fara einnig þeir þrír sem hafa verið í haldi lögreglu síðan á föstudaginn. Tveir af þeim hafa greinst með COVID-19. Í farsóttarhúsinu verða því samtals fimm af þeim sex Rúmenum sem komu til landsins í síðustu viku og brutu með ferðum sínum lög um sóttkví komumanna vegna kórónuveirufaraldurs.

Hins sjötta er enn leitað, Pioaru Alexandru Inonut, en lögreglan kveðst vilja hafa uppi á honum af bæði sóttvarnasjónarmiðum en einnig til þess að tryggja öryggi hans ef hann skyldi vera sýktur af kórónuveirunni.

Lögreglan leitar enn að Pioaru Alexandru Inonut.
Lögreglan leitar enn að Pioaru Alexandru Inonut. Ljósmynd/Lögreglan

Upphaflega komu allir sex mennirnir til Íslands saman í hópi en skiptust að því er virðist í tvo hópa. Þrír þeirra voru handteknir fyrir búðarhnupl á föstudaginn og í hádeginu daginn eftir kom í ljós að tveir þeirra voru með COVID-19. Í ljósi þess var ráðist í leit að hinum þremenningunum til þess að koma í veg fyrir að þeir breiddu út smit í samfélaginu. Tveir þeirra voru samkvæmt ofangreindu ekki með COVID-19.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert