„Við gerðum aldrei mistök“

Myndin þar sem lýst var eftir Pioaru var ítrekað notuð …
Myndin þar sem lýst var eftir Pioaru var ítrekað notuð í fjölmiðlum í Rúmeníu þar sem hann var bendlaður við glæpagengi. Samsett mynd

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti ekki eftir Pioaru Alexandru lonut í tengslum við þjófnað eða skipulagða brotastarfsemi. 

Þetta segir Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn en rannsókn á alls ellefu Rúmenum sem grunaðir voru um að hafa brotið sóttvarnalög er lokið.

Þeirra á meðal var Pioaru, sem í viðtali við Morgunblaðið í dag sagðist hafa verið ranglega bendlaður við þjófagengi í rúmenskum fjölmiðlum. 

Misskilninginn má rekja til þess þegar yfirvöld hérlendis birtu mynd af honum til þess að ná tali af honum. Þrír Rúmenanna voru handteknir fljótlega eftir komuna til landsins fyrir búðarhnupl en Pioaru þekkti ekki til mannanna fyrir komu sína til Íslands. 

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti aldrei eftir þessum ellefu mönnum í tengslum við neitt annað en brot á sóttkví. Þeir voru aldrei tengdir við þjófnað. Við rannsökuðum þá aldrei með neitt annað undir nema brot á sóttkví og við rannsökuðum þennan mann aldrei fyrir annað en það,“ segir Ásgeir um mál Pioaru. 

Sjö vísað úr landi

„Við gerðum aldrei mistök. Við tengdum þá ekki við neitt annað þó að einhverjir aðrir hafi kannski gert það.“

Fram kom í frétt mbl.is í síðustu viku að verið væri að rannsaka hvort umræddir einstaklingar hafi fylgt reglum um sóttkví en einnig hvort að hópurinn hafi verið að „gera eitthvað annað sem þau hafi ekki átt að vera að gera“.

Ásgeir segir að allir ellefu, þeirra á meðal Pioaru, hafi verið sektaðir fyrir brot á sóttvarnalögum. 

„Lokaniðurstaða málsins er sú að þeir ellefu sem við rannsökuðum voru allir með tölu sektaðir fyrir brot á sóttkví. Sjö af þeim var birtur úrskurður um frávísun frá landamærum, en ég hef ekki trú á því að þessi maður sé einn af þeim sjö,“ segir Ásgeir.  

„Aldrei vorum við að rannsaka þjófnaðarbrot eða skipulagða brotastarfsemi og við lýstum aldrei eftir þeim í tengslum við það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert