Vilji vera samstíga við opnun landamæra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómsmálaráðherra hefur viðrað þær hugmyndir við stjórnvöld í öðrum Schengen-ríkjum að Ísland opni landamæri sín fyrir íbúum allra ríkja, þegar ytri landamæri Schengen-svæðisins verða opnuð að hluta 1. júlí.

Frá því um miðjan mars hefur ekki verið heimilt að ferðast til Schengen-ríkja eða annarra ríkja Evrópusambandsins frá ríkjum utan svæðisins, nema í sérstökum undantekningartilfellum, en til stendur að opna landamærin að hluta í næstu viku.

Stórblaðið New York Times greinir frá því í gær að listi yfir „örugg ríki“ sem heimilað verður að ferðast til Evrópusambandsins sé í vinnslu innan stjórnkerfis ESB og að Bandaríkin séu ekki á þeim lista vegna slælegs árangurs í baráttunni við kórónuveiruna.

Í samtali við mbl.is segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra að sem fyrr séu skiptar skoðanir á milli ríkja og vilji sum hver opna landamærin sín meira en önnur. „Það virðist þó vera þannig að öll ríki ætli að stíga skref saman,“ segir Áslaug. Listi yfir örugg ríki sé í vinnslu en ríkjum verði í sjálfvald sett hvort þau vilja hleypa inn ferðamönnum frá öllum þeim ríkjum eða aðeins hluta þeirra. Samkvæmt fyrrgreindu vill þó Áslaug ganga lengra. „Það hafa komið neikvæð viðbrögð við hugmyndum ríkja um frekari opnanir.“ 

Ólíkar reglur milli ríkja um hverjir mega koma geta reynst flóknar viðfangs enda er frjálst flæði milli Schengen-ríkja, í það minnsta í hefðbundnu árferði.

Ráðherrar Schengen-ríkja sem fara með málefni landamæra funda reglulega og segir Áslaug að hún hafi á slíkum fundum bent á sérstöðu Íslands sem eyja og þá staðreynd að hægt er að skima alla ferðamenn sem koma hingað til lands. Því væri hægt að taka við ferðamönnum sama hvaðan þeir koma en viðhafa brottfarareftirlit til að koma í veg fyrir að þeir komist til annarra ríkja.

Áslaug segir þó að engar ákvarðanir hafi verið teknar og bendir á að tryggja þurfi „gagnkvæmnisviðmið“, þ.e. að tryggt sé að þau ríki, sem Íslendingar heimila ferðalög frá, heimili einnig Íslendingum að ferðast til þeirra. Evrópubúum er enn óheimilt að ferðast til Bandaríkjanna og hefur verið svo frá 15. mars. Engar skýrar upplýsingar hafa borist frá stjórnvöldum um breytingar í þeim efnum, ef frá eru taldar óljósar yfirlýsingar Bandaríkjaforseta á Twitter í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert