Hvernig eru sýni greind?

Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Á nýjum myndum sem Landspítalinn hefur sent mbl.is má sjá hvernig greining á sýni fer fram á sýkla- og veirufræðideild sjúkrahússins, allt frá því að sýnatökupinninn kemur í hús í Ármúla 1 og þar til niðurstaðan liggur fyrir um hvort viðkomandi einstaklingur ber með sér kórónuveirusmit eða ekki.

Verið er að uppfæra húsnæðið til þess að þar megi greina sýni frá landamærunum. Sú greining átti að hefjast í dag en ekki varð af því enda húsnæðið ekki tilbúið. Enn eru þau því greind í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar en fyrirhugað er að færa starfsemina í Ármúla sem fyrst.

Ferlið

Eins og ferlið á veiru­fræðideild­inni lít­ur út núna, er fyrst tekið við sýna­tökupinn­um í sýnaglös­um með vökva. Vökvinn sem inniheldur erfðaefni veirunnar, sé hún til staðar er síðan færður í lít­il glös, annað fyr­ir ein­angr­un erfðaefn­is og hitt fyr­ir geymslu. 

Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Vökvinn er dreg­inn úr glasinu og sett­ur á bakka sem síðan fer inn í ein­angr­un­ar­tæki, sem hreins­ar og ein­angr­ar erfðaefni sýn­is­ins.

Landspítali/Þorkell Þorkelsson
Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Að því loknu fara einangruð sýnin í sjálft PCR-tækið. Á bakkanum sem verið er að setja inn í tækið hér eru 96 bollar og 94 af þeim eru notaðir. Þegar framleiðslugetan verður aukin og greining á landamærasýnum tekin upp hjá sýkla- og veirufræðideild, munu fara fimm sýni í hvern bolla af þessum 94. Síðan verða mögulega tekin tíu í hvern bolla þegar fram líða stundir.

Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Loks koma niðurstöðurnar úr PCR-tækinu, þær niðurstöður eru rekjanlegar út frá staðsetningu einangruðu sýnanna í bakkanum. Þegar sýnin í hverjum bolla verða orðin fleiri en eitt, verða öll fimm sem sett voru í blönduna greind aftur ef veira greinist í safnsýninu. Þá er aftur tekið sýni úr geymslusýnunum sem vikið er að hér efst.

Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Framkvæmdir

Unnið er hörðum höndum að því að gera húsnæðið að Ármúla 1 í stakk búið til að taka við greiningu á sýnum frá landamærunum, en hingað til hafa engin slík sýni verið greind í húsinu. Verið er að koma fyrir nýrri rannsóknarstofu sem tekur við af þeirri sem sést á myndunum að ofan og verður sú eldri að skrifstofu að hluta.

Landspítali/Þorkell Þorkelsson
Landspítali/Þorkell Þorkelsson
Landspítali/Þorkell Þorkelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert