Þórólfur snýr aftur

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í mars. Hann hefur verið í fríi, …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í mars. Hann hefur verið í fríi, sem nú tekur enda. Kristinn Magnússon

Stutt frí Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis sem hófst síðasta föstudag tekur nú bráðan enda í ljósi ástandsins. Hann snýr aftur á morgun á upplýsingafund almannavarna vegna kórónuveirunnar, sem verður í beinni útsendingu klukkan tvö, samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum.

Blaðamannafundur á fimmtudeginum fyrir viku átti að vera sá síðasti í bili en það var fljótt að breytast. Einn var haldinn í fyrradag og annar í dag og Kamilla Sigríður Jósefsdóttir læknir hjá embætti sóttvarnalæknis hefur þar leyst Þórólf af, svo sem í öðrum hans embættisverkum.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir á blaðamannafundi í dag.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir á blaðamannafundi í dag. Árni Sæberg

Á fundinum á morgun verður að vanda farið yfir stöðuna og nýjustu tölur í hópsýkingunni sem komin er upp og sjónir manna beinast að nú um mundir. Ný innanlandssmit voru 10 í gær og höfðu þau ekki verið eins mörg frá 18. apríl, þegar fyrri bylgja veirunnar var að ganga niður. Einn hefur verið lagður inn á sjúkrahús vegna COVID-19 og Landspítalinn er á hættustigi.

Skammlífar aðgerðir til að ná utan um ástandið

Hertar aðgerðir voru boðaðar í dag vegna þessa ástands, sem taka gildi í hádeginu á morgun. Aðeins 100 mega koma saman, tveggja metra millibilsástand er skylda og grímuskylda ríkir þar sem ekki er unnt að virða mannhelgina.

Aðgerðirnar eiga aðeins að gilda í tvær vikur og þeim er ætlað að ná utan um ástandið áður en það er of seint. Ljóst er að nokkur fjöldi fólks er smitaður og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hefur sagt við mbl.is að ef í ljós komi að smitið sé útbreiddara en vitað er til núna, verði aðgerðir framlengdar eða þeim breytt.

mbl.is

Bloggað um fréttina