Sendi líbanska utanríkisráðherranum samúðarkveðju

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefur sent Charbel Wehbe, utanríkisráðherra Líbanons, samúðarkveðjur vegna sprenginganna í Beirút. Ríkisstjórn mun styðja neyðar- og mannúðarstarf þar með fjárframlagi til samstarfsstofnana Íslands á því sviði. 

Í skeytinu sem Guðlaugur Þór sendi Wehbe í gær er lýst yfir innilegri samúð vegna hörmunganna sem áttu sér stað í líbönsku höfuðborginni á þriðjudag. 

„Við ætlum að styðja þetta starf með fjárframlagi og á næstu dögum verður ljóst hvar þörfin er brýnust. Núna vinna alþjóðastofnanir að því að meta þörfina á vettvangi og hve umfangsmikil neyðaðstoðin þarf að vera. Í framhaldi af því sjáum við hvar þeir fjármunir sem Ísland leggur til nýtist sem best,“ er haft eftir Guðlaugi Þór í tilkynningu. „Hver sem niðurstaðan verður erum við sannarlega reiðubúin til að leggja okkar að mörkum til stuðnings líbönsku þjóðinni.“ 

Gera má ráð fyrir að brýn þörf verði á matvælaaðstoð í Líbanon þar sem stærsta höfn landsins varð fyrir miklu tjóni auk þess sem miklar matvælabirgðir voru geymdar á hafnarsvæðinu. Þá er ljóst að mikið álag er á heilbrigðiskerfi landsins, sem var nægt fyrir vegna heimsfaraldur kórónuveirunnar, en smitum hefur fjölgað í Líbanon að undanförnu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert