Segir að nú ríki „alger upplýsingaóreiða“

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/RAX

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir fólk í ferðaþjónustunni vera „dofið, vonsvikið og í raun í áfalli“. Nýjar reglur á landamærum tóku gildi á miðvikudag og hafa ýmsir ferðaþjónustuaðilar lýst yfir óánægju sinni. 

Bjarnheiður segir afleiðingar ákvarðana í tengslum við reglur á landamærum þegar komnar í ljós. „Það hefur verið skrúfað fyrir komur ferðamanna til landsins – og afleiðingar þeirrar staðreyndar fara að birtast öllum af fullum þunga á næstu dögum, vikum og mánuðum. Fólk í ferðaþjónustu er dofið, vonsvikið og í raun í áfalli,“ skrifar Bjarnheiður í færslu sinni á Facebook. 

Leiðir til sundurlyndis, reiði og ásakana

„Umræðan undanfarna viku hefur verið undirlögð af þessu og sýnist sitt hverjum, sem von er. Ég hef lesið og hlustað á flest, sem rætt hefur verið. Það sem flestir eru sammála um er að það vantar skýrt markmið með sóttvarnaaðgerðum almennt. Við þurfum einnig að vita hvernig ákvarðanir eru teknar, af hverju og hvaða sjónarmið og útreikningar leiddu til þeirra,“ skrifar Bjarnheiður. 

„Til að þjóðin verði með á skútunni og sé tilbúin til að leggjast áfram á árarnar, þá þarf skilningur að vera fyrir hendi. Mér finnst því miður að nú ríki alger upplýsingaóreiða, sem svo aftur leiðir til sundurlyndis, reiði og ásakana á milli einstakra hópa í samfélaginu. Það er bara alls ekkert hægt að tala um það lengur að við séum „öll í þessu saman“ og að „það beri sig allir vel og að allt sé í góðu inni hjá mér,“ skrifar Bjarnheiður. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert