Brakaði í húsum og hlutir titruðu í hillum

Grindvíkingar fundu vel fyrir skjálftanum og brakaði í húsum einhverra.
Grindvíkingar fundu vel fyrir skjálftanum og brakaði í húsum einhverra. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum ekki heyrt af neinu tjóni eða hruni. Þeir sem ég talaði við í Grindavík sögðu að hlutir hafi titrað í hillunum hjá þeim og eitthvað aðeins brakað í húsum,“ segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands um skjálfta af stærð 4,2 sem varð klukk­an 16.15 síðdeg­is í dag og fannst víða á Suðvesturlandi. 

Yfir 100 tilkynningar bárust Veðurstofunni vegna skjálftans. Töluverð eftirskjálftavirkni hefur verið í kjölfar hans. 

„Í svona hrinum er í raun aldrei hægt að útiloka það að við munum fá stærri skjálfta yfir 5 að stærð. Eins og við reynum að benda á í svona hrinum þá er þetta er ágætt tækifæri fyrir fólk sem býr nálægt að fara yfir viðbrögð við skjálftum og tryggja lausamuni,“ segir Einar.

Virkni jókst aftur í morgun

Skjálftinn varð 3,2 kílómetra austur af Fagradalsfjalli en tveir stórir skjálftar eru skráðir á vef Veðurstofu Íslands klukkan 16:15, annar 4,9 af stærð. Einar segir að það sé einfaldlega vegna þess að sjálfvirkt kerfi hafi skráð stærri skjálftann inn, ekki hafi tveir stórir skjálftar orðið klukkan 16:15. 

Skjálftavirkni við Fagradalsfjall hófst 19. júlí síðastliðinn. Í upphafi hrinu urðu stærri skjálftar en sá sem varð í dag, 19. og 20. júlí skalf jörðin við fjallið duglega með skjálftum sem voru 4,6 og 5 af stærð. Virknin jókst aftur í morgun, að sögn Einars.

Ann­ar skjálfti varð fyrr í dag sem fannst víða á Suður­nesj­um og á höfuðborg­ar­svæðinu. Hann var af stærðinni 3,7 og varð 2,9 kíló­metra aust­ur af Fagra­dals­fjalli um klukk­an kort­er í tvö. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert