Kalla eftir 6 mánaða tekjutengdum bótum

Oddný Harðardóttir er formaður þingflokks Samfylkingarinnar.
Oddný Harðardóttir er formaður þingflokks Samfylkingarinnar. Arnþór Birkisson

Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi krefst þess að „allir þeir sem misst hafa vinnuna vegna covid-19 fái 6 mánaða tekjutengdar atvinnuleysisbætur og horfið verði frá því óréttlæti að skilja þá eftir sem misstu vinnuna í upphafi faraldursins“, að því er fram kemur í ályktun ráðsins. 

Sérstaklega vekur ráðið athygli á atvinnuleysi sem nú mælist á Suðurnesjum og Suðurlandi. Atvinnuleysi mælist 18% á Suðurnesjum og 7,5% á Suðurlandi. 

„Þá er mikilvægt að ríkið í samstarfi við sveitarfélög og fyrirtæki komi af stað atvinnuskapandi átaksverkefnum fyrir atvinnuleitendur þar til atvinnulífið hefur náð sér á strik.“

Ráðið þrýstir einnig á að öruggt sjúkraflug til Vestmannaeyja og Hafnar í Hornafirði verði tryggt, atvinnutækifæri séu sköpuð með nýsköpun og menntun, aukið sé við starfsmenntun á sviði umhverfis og garðyrkju o.fl. 

„Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi krefst aðgerða strax sem skapa atvinnutækifæri og græna uppbyggingu á sama tíma og staðið er vörður um velferðina og heimilin.“

mbl.is