Ákærð fyrir aðkomu að mótmælum í fyrra

Elínborg Harpa eftir handtöku í gleðigöngunni í fyrra. Bar hún …
Elínborg Harpa eftir handtöku í gleðigöngunni í fyrra. Bar hún þá grímu sem henni var meinað að bera. Ljósmynd/Aðsend

Embætti héraðssaksóknara og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafa ákært Elínborgu Hörpu Önundardóttur, baráttukonu fyrir réttindum flóttafólks, vegna fjögurra atvika á síðasta ári, en  þau tengjast aðgerðum þegar mótmælt var aðbúnaði hælisleitenda hér á landi, að ekki fengju allir efnismeðferð mála sinna og brottvísun hælisleitenda.

Þrjár ákærur gegn Elínborgu voru gefnar út. Sú fyrsta er frá héraðssaksóknara, en þar er Elínborgu gefið að sök að hafa sparkað þrisvar í fætur lögreglumanns á mótmælum 11. mars í fyrra á Austurvelli. Þennan sama dag beitti lögreglan piparúða og til átaka kom á milli mótmælenda og lögreglu.

Viðbrögð lögreglunnar rötuðu inn á Alþingi þar sem sumir þingmenn gagnrýndu aðgerðirnar og töldu þær of harkalegar. Lögreglan sagði skýringar mótmælenda hins vegar „eftiráskýringar.“

Í annari ákæru er Elínborg ákærð fyrir brot gegn lögreglulögum með því að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu að fara frá dyrum að aðalinngangi Alþingishússins. Þann dag handtók lögregla þrjá einstaklinga við Alþingishúsið eftir mótmæli No Borders samtakanna. Hafði tilkynning borist að 20-30 aðilar lokuðu fyrir alla innganga Alþingishússins. Gaf lögregla fyrirmæli að fólkið myndi færa sig, en þrír voru að lokum handteknir. 

Regluleg mótmæli voru í mars og apríl í fyrra þar …
Regluleg mótmæli voru í mars og apríl í fyrra þar sem mótmælendur kröfðust aukinna réttinda fyrir hælisleitendur. Þessi mynd er tekin frá mótmælum 4. apríl, daginn áður en Elínborg var handtekin á sama stað við mótmæli. Ljósmynd/Eva Björk

Í þriðju ákærunni er Elínborgu gefið að sök að hafa ekki fylgt fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa anddyri dómsmálaráðuneytisins 5. apríl í fyrra og ekki heldur fylgt fyrirmælum um að yfirgefa vettvang og halda för sinni áfram þar sem lögregla aðstoðaði almennan borgara við verslun 10-11 í Austurstræti 29. júlí í fyrra.

Fimm voru handteknir við dómsmálaráðuneytið sama dag og Elínborg, en þessa daga áttu sér stað regluleg mótmæli til að berjast fyrir kröfum hælisleitenda.

Fyrr á þessu ári var greint frá því að annar baráttumaður fyrir réttindum flóttafólks, Kári Orrason, hefði verið ákærður fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu við mótmæli við dómsmálaráðuneytið í apríl.

Elínborg hefur einnig komist í fréttir vegna afskipta lögreglu af henni, en hún var handtekin í gleðigöngunni í fyrra. Lýsti hún handtökunni fyrir mbl.is í fyrra.

Mótmælin á Austurvelli 11. mars í fyrra. Þann dag beitti …
Mótmælin á Austurvelli 11. mars í fyrra. Þann dag beitti lögreglan piparúða á mótmælendur, en Elínborg er ákærð fyrir að hafa sparkað í lögreglumann. mbl.is/Eggert

Í nóvember komst svo nefnd um eftirlit með lögreglu að þeirri niðurstöðu að lögreglan hefði hvorki farið út fyrir valdheimildir sínar þegar Elínborg var handtekin í gleðigöngunni né þegar piparúða var beitt á mótmælendur á Austurvelli í mars.

Elínborg var í ítarlegu viðtali við Fréttablaðið í fyrra þar sem hún ræddi meðal annars um mótmæli og afskipti lögreglu af mótmælendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert