40% rýma á Laugavegi ekki í notkun

Það er undarlegt að ganga niður Laugaveginn þessa dagana. Innan um fallega skreyttar göngugötur, gróður í haustlitum og jafnvel iðandi mannlíf á köflum má greinilega sjá að verslun berst í bökkum. Í óvísindalegri könnun á rýmum með inngang á fyrstu hæð við Laugaveg kemur í ljós að 76 rými eru lokuð eða 39,6%. 116 eru í rekstri þessa dagana. 

Könnunin var einföld. Ég gekk niður Laugaveginn með teljara og taldi rými þar sem rekstur var í gangi og rými sem eru lokuð. Counter-appið er tilvalið í svona æfingar.

Minjagripaverslanir kveðja

Misjafnar ástæður eru fyrir lokununum. Einhverjir þurfa að loka rekstri sínum á meðan núverandi samkomutakmarkanir eru í gildi en aðrir taka fram að opnað verði þegar ástandið batnar. Langflest rýmin eru þó einfaldlega tóm og sum hafa verið það um langt skeið.

Einsleitni í rekstri við Laugaveginn hefur líka mikil áhrif á ástandið þar sem margir eru að gefast upp á rekstri minjagripaverslana sem hafa verið áberandi undanfarin ár en hafa ekki verið ábatasamar frá því að kórónuveiran tók að setja strik í reikninginn. Til að mynda er verið að loka versluninni Lundanum á horni Bergstaðastrætis og Skólavörðustígs og þar var verið að pakka saman í gær.

Á Skólavörðustígnum virðast 19 verslunarrými vera lokuð en 40 eru í rekstri og á Hverfisgötu taldist mér til að lokuð rými væru 28. Hliðargötur eru auðvitað margar og þar er svipað upp á teningnum án þess að lagt hafi verið í talningu þar. 

Húsnæði er svo að sjálfsögðu af ýmsum toga. Sum rýmin telja fleiri hundruð fermetra og eru í nýbyggðu og kostnaðarsömu húsnæði en önnur smærri í gömlum húsum. Í myndskeiðinu að ofan má fá tilfinningu fyrir stemningunni í miðbænum þessa dagana. 

Staðan er líka alvarleg við SKólavörðustíg.
Staðan er líka alvarleg við SKólavörðustíg. Morgunblaðið/Sigurður Unnar Ragnarsson
mbl.is