Áttu fótum sínum fjör að launa niður Keili

Jón Svavar lenti heldur betur í honum kröppum. Í baksýn …
Jón Svavar lenti heldur betur í honum kröppum. Í baksýn sést farið í fjallinu þar sem steinn rúllaði niður. Ljósmynd/Aðsend

Jón Svavar Jósefsson og kærasta hans Halldóra Björk áttu fótum sínum fjör að launa á fjallinu Keili þegar jarðskjálftinn gekk þar yfir í dag og risastórir steinar tóku að rúlla niður hlíðarnar. Fjallið er skammt frá upptökum skjálftans.

„Það hefði getað farið mjög illa ef maður hefði fengið stein á sig. Það er algjör lukka að það hafi ekki gerst,“ segir Jón Svavar, sem er óperusöngvari og kórstjóri Bartóna, meðal annars.

Hann og Halldóra ætluðu sér að fara í létta gönguferð upp Keili og voru komin á toppinn um hálftvöleytið í dag. Þau löbbuðu hefðbundna leið að fjallinu, gengu svo upp á topp, tóku nokkrar myndir og virtu fyrir sér útsýnið.

„Eins og fjallið kæmi í fangið á okkur“

Eftir það löbbuðu þau niður vestanmegin um þrjátíu metra til að setjast niður og fá sér kaffi. Þau héldu svo áfram för. Leiðin niður var nokkuð brött og runnu þau aðeins til eins og gengur og gerist á þessu fjalli. Þegar þau voru komin niður fyrir ákveðinn ás og úr „sleipri sandhellunni“ tók jörðin að skjálfa undir þeim. „Það var allt í einu eins og fjallið kæmi í fangið á okkur. Maður heldur fyrst að maður sé að fá aðsvif,“ greinir hann frá og segist hafa verið að snúa sér við þegar „allt í einu fannst mér ég vera að labba í sandi í lausu lofti. Það næsta sem ég vissi var að ég sat á rassinum einhvers staðar fyrir neðan og húfan datt af mér og sólgleraugun mín,“ bætir hann við. Þurfti hann að klifra upp nokkra metra til að sækja gleraugun sem höfðu grafist undir sandinum.

Halldóra Björk hjá einum steinanna.
Halldóra Björk hjá einum steinanna. Ljósmynd/Aðsend

Stórir hnullungar ultu framhjá 

Það næsta sem gerðist var að hnullungar voru byrjaðir að velta fram hjá þeim, sitt hvorum megin við þau, misstórir. Sumir voru á stærð við björg, bætir hann við. „Halldóra kærastan mín kallaði: „Hlaupum niður.“ Þá vorum við  akkúrat komin niður fyrir þessa hellu og þá gátum við hlaupið, ekki stíginn, heldur beint niður fjallið,“ segir Jón Svavar og nefnir að sem betur fer hafi verið lítið af stórgrýti þar. „Á eftir okkur voru að rúlla niður hnullungar, sérstaklega þarna sunnanmegin við okkur. Þetta var alveg ótrúlegur kraftur. Það var eins og fjallið hefði færst til um fjóra metra og við með því. Svo hlupum við niður og maður var bara heppinn að fá ekki stein yfir sig.“

Á stærð við Yaris

Fyrst um sinn voru þau nánast hlaupandi undan steinunum en eftir að þau höfðu áttað sig betur á hlutunum sáu þau að steinarnir voru ekki að hrynja á eftir þeim. Þau gátu hlaupið niður og sáu steina rúlla um 200 metra til hliðar við sig alla leiðina niður. „Svo sá maður á leiðinni til baka að það var búið að kastast til alls konar grjót á gönguleiðinni sjálfri,“ segir hann og nefnir að risastór steinn á stærð við kommóðu hafði hossast upp úr fari sínu. Hann hafði því ekki rúllað niður hlíðina. Aftur á móti hafi stærstu steinarnir sem hann sá verið á stærð við Yaris-bíla.

Þessi steinn færist til.
Þessi steinn færist til. Ljósmynd/Aðsend

Göngumaður hruflaði sig á hnakkanum

Við þetta er að bæta að Jón Svavar og Halldóra höfðu séð göngumann labba framhjá sér um kortéri áður en skjálftinn varð. Fyrst um sinn, þegar þau voru komin niður fjallið, sáu þau hann ekki og gengu meðfram fjallinu í von um að koma auga á hann. Síðar sáu þau hann og gaf hann þeim merki um að allt væri í lagi. Þau biðu svo eftir honum niðri og kom þá í ljós að hann hafði verið uppi á toppnum þar sem útsýnisskífan stendur. Þar færðist hann úr stað og datt og hruflaði sig á hnakkanum, að sögn Jóns Svavars.

Spurður hvort hann hafði ekki verið logandi hræddur í öllum hamaganginum segist hann hafa fengið sjokk en atburðurinn hafi líka verið spennandi. „Auðvitað verður maður skíthræddur þegar þetta gerist,“ segir hann. Eftir að hann var búinn að átta sig á að allt væri í lagi „var ansi gaman að upplifa þetta líka“.

Inntur eftir því hvort hann hafi áttað sig strax á því að þarna hefði orðið jarðskjálfti segist hann einmitt hafa verið að ræða þessi mál við kærustuna sína á leiðinni upp fjallið. „Við vorum að tala um að það væru búnir að vera skjálftar þarna. Maður var búinn að hugsa sér að það væri nú verra ef maður lenti í skjálfta,“ útskýrir hann. „Þetta var ótrúlegt. Maður finnur við svona aðstæður hvað maður er lítill og landið er kröftugt undir manni.“

mbl.is