„Eins og manni væri sveiflað til og frá“

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, býr í Grindavík og fann því vel fyrir jarðskjálftanum sem varð nú laust fyrir klukkan tvö í dag. Hann segist ekki hafa fundið hristing í veggjum og gólfi, heldur hafi honum frekar þótt eins og hann sveiflaðist til og frá.

„Þessi skjálfti var svolítið skrýtinn. Við urðum ekki vör við neinn hristing og hér nötraði ekki allt eins og sum staðar gerðist. Heldur fannst manni eins og það væri verið að sveifla manni til og frá,“ segir Vilhjálmur við mbl.is

„Mér er sagt að þetta kunni að hafa eitthvað með fjarlægð manns frá skjálftamiðjunni að gera. Ef maður er eitthvað ákveðið langt frá þá geti maður fundið hristing eins og í Reykjavík í dag, en ef maður er jafnnálægt og ég var í dag þá kannski finnur maður frekar bylgjukenndar sveiflur eins og ég lýsti. Án þess ég vilji fullyrða um það eitthvað sjálfur.“

Þessi öflugi skjálfti hagaði sér svipað og sá síðasti, þeytti manni í allar áttir. Það eru allir í góðu standi hér á heimaskrifstofunni. Meira að segja Sigurlaug Pétursdóttir fann ekki fyrir þessum skjálfta.

Posted by Vilhjálmur Árnason on Þriðjudagur, 20. október 2020

Jarðskjálfti á Alþingi

Vilhjálmur er staddur heima, þaðan sem hann vinnur, ásamt fjölskyldu sinni. Á Facebook-síðu sinni birti hann myndbönd af því þegar heimili hans virtist sveiflast um. Ljós sem héngu úr veggjum sveifluðust til og frá að sögn Vilhjálms.

Vegna kórónuveirunnar vann Vilhjálmur heima í dag og fór ekki niður á þing. Það gerði hins vegar Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. Hann rauk úr pontu þegar skjálftans varð vart og virti að vettugi tilmæli Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, um að þingmenn skyldu sýna stillingu.

Grindavíkurbúar öruggir

Vilhjálmur segir íbúa Grindavíkur vana svona skjálftum en þar hafa mælst þónokkrar jarðhræringar undanfarið. Grindarvíkurbúum finnist þeir þó vera öruggir þar sem athygli skjálftamælinga beinist nú í auknum mæli að suðvesturhorninu.

„Allur fókus hefur færst hingað. Nú eru hér mælingartæki sem vakta skjálftavirkni og nú eru til staðar viðbragðsáætlanir sem gilda á svæðinu. Íbúar hérna á svæðinu eru því alveg vanir svona skjálftum og finnst þeir öruggir vegna þeirrar athygli sem beint hefur verið að þessu svæði.“

mbl.is