„Við áfrýjum þessu“

Bjørn Andre Gulstad verjandi og Gunnar Jóhann Gunnarsson ræða við …
Bjørn Andre Gulstad verjandi og Gunnar Jóhann Gunnarsson ræða við mbl.is í fangelsinu í Vadsø á meðan aðalmeðferð málsins stóð yfir í september. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Já, þessum dómi verður áfrýjað,“ segir Bjørn Andre Gulstad, verjandi Gunnars Jóhanns Gunnarssonar, í samtali við mbl.is og vísar til 13 ára dóms sem féll í Mehamn-málinu í morgun.

„Umbjóðandi minn gleðst yfir því að hafa verið tekinn trúanlegur og því að rétturinn hafnaði skýringu hans á atburðarásinni ekki alfarið,“ segir Gulstad og vísar til þess þar sem segir í rökstuðningi dómsins að miðað við ítarlega athugun rannsóknarlögreglunnar Kripos á skotvopninu sé ekki með öllu hægt að útiloka að haglaskotið, sem varð Gísla Þór að bana, hafi hlaupið af án þess að Gunnar tæki í gikk vopnsins.

Tók aldrei meðvitaða ákvörðun

„Hann er hins vegar ósammála mati dómsins á að þeirri óvissu, sem um þetta atriði ríkir, sé beitt honum í óhag. Það sem einnig vegur hér þungt er að umbjóðandi minn tók aldrei meðvitaða ákvörðun um að fara inn í þessar aðstæður hefði hann á þeim tíma sjálfur talið að hálfbróðir hans hlyti bana af.

Réttinum tókst ekki að sýna fram á, það sem þó telst eðlilegt í sakamálaréttarfari, að umbjóðandi minn hefði tekið þá ákvörðun að fremja verknaðinn hefði hann grunað eða vitað að háttsemi hans hefði andlát í för með sér,“ segir Gulstad.

Í rökstuðningi héraðsdóms um ásetning Gunnars segir: „Tvö skilyrði þarf að uppfylla til að sýna fram á dolus eventualis [lægsta stig ásetnings, brotamaður álítur að afleiðing kunni að koma fram en hann hefði engu að síður framið verknaðinn þótt hann hefði talið víst að afleiðingin kæmi fram]. Það fyrra er að ákærði hefði í edrú ástandi talið mögulegt að Gísli hlyti bana af. Það síðara er að hann hefði engu að síður haft uppi þá háttsemi sem rétturinn telur sannaða.“

Réttarhöld í Tromsø fram undan

Nú bíða ný réttarhöld á nýju ári, að þessu sinni fyrir Lögmannsrétti Hálogalands í Tromsø sem tekur við áfrýjunarmálum frá Finnmörk. „Umbjóðandi minn hlakkar til að skýringar hans og sönnunargögn málsins verði nú borin undir æðra dómstig til samþykktar eða synjunar og hann hefur fundið fyrir sterkum stuðningi utanaðkomandi fólks í máli sínu,“ sagði Gulstad að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert