Vill halda sömu aðgerðum út nóvember

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands.
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands segir það að vonum jákvæða þróun að smitstuðullinn vegna kórónuveirunnar sé að skríða niður fyrir 1. Til þess að stuðullinn haldist þar þarf að halda samskonar sóttavarnaaðgerðum áfram og er núna viðhafðar, helst út nóvember.

„Ég held það. Alla vega myndi ég ekki breyta alveg í bráð. Ég myndi vilja sjá að þessu yrði haldið aðeins áfram,“ segir Thor en í nýju spálíkani kemur einmitt fram að gera megi ráð fyrir að það taki til enda nóvember að ná smitum í lágar tölur.

Aðspurður játar hann að við séum á réttri leið ef horft er til þeirra 30 smita sem greindust í gær, miðað við hvernig staðan hefur verið undanfarið. Hann tekur þó fram að 30 smit séu svolítið mikið og að fyrstu tíu dagana í apríl hafi þau verið álíka mörg. „Við vorum ekkert að rýmka þá. Það tók tæplega mánuð að klára þetta. Ef það er markmiðið að ná þessu alveg niður þurfum við að fara langt inn í nóvember til að losna við að hafa þetta um jólin,“ greinir hann frá.

Komufarþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Komufarþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Árni Sæberg

Svartsýnn á að veiran hverfi alveg

Hann kveðst svartsýnn á að veiran hverfi alveg og telur að einhver smit verði áfram á stangli. Þar spilar inn í, að hans sögn, að ekki er hægt að banna fólki að koma til landsins. Hann nefnir til dæmis að margir Pólverjar búi hérlendis. Þar sé ástandið vegna veirunnar „ótrúlega erfitt“ og nýgengi smita á hverja 100 þúsund íbúa sé hátt.

Thor segir lítinn hraða vera á nýju smitunum hér á landi. „Fólk er greinilega að passa sig. Það er talsvert af smitum núna að greinast og þau hefðu átt að smita fullt út frá sér ef það hefðu engar hömlur verið á okkur,“ segir hann og þakkar þetta m.a. sóttkví og aukinni grímunotkun fólks. Hann segir gott að fólk hafi haldið sér nokkurn veginn í sinni „búbblu“. Annars hefði faraldurinn líklega ekki lækkað og smitin haldist áfram í 50 til 60 á sólarhring.

Ljósmynd/Landspítalinn

„Rosalegt“ hópsmit kemur á óvart

Spurður hvort eitthvað komi honum á óvart miðað við stöðu faraldursins núna nefnir hann hópsmitið sem varð í kringum hnefaleikastöð. „Maður sér það núna hvað þetta hópsmit var rosalegt. Þetta var óvenjulegur atburður sem náði að breiða út frá sér,“ segir hann og hvetur fólk til að halda smitvörnum áfram til að halda smitstuðlinum undir einum. „Þá á þetta að deyja út hægt og rólega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert