Ræddu efnahagslegar afleiðingar faraldursins

Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, undirritar sameiginlega minnisblaðið fyrir Íslands …
Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, undirritar sameiginlega minnisblaðið fyrir Íslands hönd. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins og vegabréfsáritanir fyrir íslenska atvinnurekendur og fjárfesta voru á meðal umræðuefna á efnahagssamráðsfundi Íslands og Bandaríkjanna sem fram fór í dag. 

Þetta er í annað skiptið sem efnahagssamráðið fer fram en ákveðið var að setja það á fót á fundi þeirra Guðlaugs Þórs og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Reykjavík í febrúar í fyrra. Upphaflega stóð til að halda fundinn í Washington í vor en vegna Covid-19-farsóttarinnar var ekki unnt að halda hann fyrr en í dag og þá í gegnum fjarfundarbúnað.  

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að meðal annars hafi verið rætt um efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins, vegabréfsáritanir fyrir íslenska atvinnurekendur og fjárfesta, kerfisbundna skimun á erlendum fjárfestingum og vernd mikilvægra innviða. Þá var á fundinum undirritað sameiginlegt minnisblað um áframhaldandi samvinnu á ýmsum sviðum á þessum vettvangi og að festa samráðið í sessi þannig að það verði eftirleiðis haldið árlega. 

Frá vinstri: Kristín A. Árnadóttir sendiherra, María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri …
Frá vinstri: Kristín A. Árnadóttir sendiherra, María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu, Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu og Jón Erlingur Jónasson, skrifstofustjóri skrifstofu tvíhliða samstarfs og svæðisbundinna málefna. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Bandaríkin eru okkar mikilvægasta viðskiptaland og það hefur líklega aldrei verið mikilvægara en nú að styrkja sambandið vestur yfir haf. Áþreifanleg staðfesting á að nánari samvinna sé farin að skila árangri er Íslandsfrumvarpið svonefnda um sérstakar vegabréfaáritanir fyrir íslenskt viðskiptafólk í Bandaríkjunum. Ég er bjartsýnn á að fleiri brýr verði byggðar á næstu misserum til að efla viðskipti á milli þessara vinaþjóða. Í því sambandi skiptir miklu máli að efnahagssamráðið hefur nú verið fest í sessi þannig að það verður haldið á hverju ári,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Manisha Singh, aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna á sviði efnahags- og viðskiptamála, leiddi fundinn af hálfu Bandaríkjamanna og Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, fór fyrir íslensku sendinefndinni.

mbl.is