Mýta að veiran hafi lítil áhrif á börn

Alþjóðadagur barna er í dag.
Alþjóðadagur barna er í dag. Ljósmynd/Unicef

„Sú mýta að kórónuveiran hafi lítil áhrif á börn eða ungt fólk hefur verið viðvarandi. Ekkert gæti þó verið fjarri sannleikanum,“ segir Steinunn Jakobsdóttir, kynningarstjóri UNICEF á Íslandi. Þó svo að börn og ungt fólk verði ef til vill minna veik og smiti síður en fullorðnir þá finnast afleiðingarnar víða, sérstaklega hjá fátækustu og jaðarsettustu hópunum sem voru í mjög viðkvæmri stöðu fyrir.

Þetta sýnir sig meðal annars í röskun á heilbrigðis- og félagsþjónustu, lokun skóla, vaxandi fátækt og vannæringu og aukningu í tilkynningum vegna ofbeldis og vanrækslu, að því er fram kemur í tilkynningu frá UNICEF en alþjóðadagur barna er í dag.

Í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, vara samtökin við því að kórónuveiran muni valda óafturkræfum skaða og stefna heilli kynslóð barna í hættu ef ríkisstjórnir og alþjóðasamfélagið bregðast ekki við afleiðingum veirunnar. 

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að eitt af hverjum níu Covid-tilfellum sem hafa verið tilkynnt í heiminum eru börn og ungmenni og hefur smitum í þessum aldurshópi fjölgað mikið. Langtíma áhrif veirunnar á líf heillar kynslóðar eru ótvíræð. Á heimsvísu er áætlað að fjöldi barna sem búa við fátækt á mörgum sviðum - börn sem hafa ekki aðgang að menntun, heilsugæslu, húsnæði, næringu, hreinlætisaðstöðu eða hreinu vatni - hafi aukist um 15 prósent eða um 140 milljónir barna árið 2020.

„Ógnirnar eru margvíslegar og því lengur sem þetta ástand varir, þeim mun djúpstæðari áhrif mun þetta hafa á menntun barna, heilsu þeirra, næringu og vellíðan. Alþjóðadagur barna verður að vera dagur þar sem við hugsum um lausnir og ímyndum okkur betri framtíð, fyrir öll börn,“ segir Steinunn.

Með skýrslunni fylgir aðgerðaáætlun og ákall um að ríkisstjórnir, einkageirinn og samstarfsaðilar hlusti á börn og taki áætlunina alvarlega. Áætlunin er í sex liðum og felur í sér að:

1.   Tryggja að öll börn hafi aðgang að menntun og að stafræna bilið verði brúað.

2.   Tryggja aðgang að næringu og heilbrigðisþjónustu og gera bólusetningar viðráðanlegar og aðgengilegar öllum börnum.

3.   Styðja við geðheilbrigði barna og ungs fólks og binda enda á misnotkun, kynbundið ofbeldi og vanrækslu.

4.   Auka aðgengi að öruggu drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu og takast á við umhverfisspjöll og loftslagsbreytingar.

5.   Bregðast við aukinni fátækt meðal barna.

6.   Auka aðgerðir til að vernda og styðja börn og fjölskyldur þeirra sem búa við stríðsátök, hamfarir og eru á flótta.

„Það skiptir máli að hlusta á börn og ungmenni. En það er ekki nóg að hlusta, það þarf að taka mark á því sem þau hafa að segja, að leifa ungu fólki að hafa áhrif á ákvarðanir sem þau varðar og að ráðamenn mæti þeirra þörfum. Unga fólkið mun þurfa að lifa með afleiðingum þessa heimsfaraldurs og hvernig brugðist er við hefur bein áhrif á þeirra framtíð,“ segir Steinunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert