Krefst 16 ára fangelsis fyrir morð

Frá vettvangi í Úlfarsárdal. Afar umfangsmikil rannsókn var gerð á …
Frá vettvangi í Úlfarsárdal. Afar umfangsmikil rannsókn var gerð á málinu. mbl.is/Alexander Gunnar

Saksóknari fór fram á 16 ára fangelsisdóm yfir Arturas Leimontas fyrir morð fyrir helgi. Arturasi er gefið að sök að hafa kastað öðrum manni fram af svölum í Úlfarsárdal í Reykjavík fyrir um ári síðan. RÚV greinir frá þessu. 

Arturas var ákærður fyrir morðið í júní síðastliðnum í tengslum við mannslát sem varð þegar Egidijus Buzleis, maður á sex­tugs­aldri féll fram af svöl­um á þriðju hæð fjöl­býl­is­húss við Skyggn­is­braut í Úlfarsár­dal í Reykja­vík mánu­dag­inn 9. des­em­ber á síðasta ári. 

Arturas er 51 árs gamall og frá Litháen en hann er búsettur hérlendis. Egidijus var einnig frá Litháen og búsettur hérlendis.

Sennilega kastað eða hrint, skv. sérfræðingum

Í frétt RÚV kemur fram að Arnar Kormákur Friðriksson, verjandi Leimontas, krefjist sýknu af ákærunni. Hann segir sakirnar ósannaðar þar sem ekki sé útilokað að Egidijus hefði fallið fallið fram af svölunum af öðrum völdum en að honum hefði verið hrint eða kastað.

Arturas sat í gæsluvarðhaldi í einn og hálfan mánuð en Landsréttur sleppti honum vegna þeirrar óvissu sem ríkti um atburðarásina og úrskurðaði hann í staðinn í farbann sem hann hefur sætt síðan.

Afar umfangsmikil rannsókn var gerð á málinu en lögregla sviðsetti til að mynda vettvanginn að viðstöddum verkfræðiprófessor og fleirum og kastaði brúðu í mannslíki, sem líktist Egidijusi að hæð og þyngd, úr sömu hæð og fram af jafn háu handriði. Atburðarásin var tekin upp með fjórum myndavélum samtímis. Niðurstaða sérfræðinga var sú að Egidijusi hafi sennilega verið kastað eða hrint af afli fram af svölunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert