Fóru á báti eftir Blíðu

Blíða fannst sem betur fer heil á húfi.
Blíða fannst sem betur fer heil á húfi. Ljósmynd/Kristjan Torr

Kvikmyndagerðarmaðurinn og ljósmyndarinn Kristján Þór Kristjánsson hefur skrifað eins konar dagbókarfærslu á Facebook þar sem hann lýsir upplifun sinni af hamförunum á Seyðisfirði þegar aurskriður féllu þar í lok ársins. 

„Um nóttina: engin svefn, bara ráf og refresh á ruv.is þangað til að birtist frétt um Breiðablik. Húsið er farið. Úr rúminu! Myndavélin í poka og ég skal niðrá Lónsleiru að taka myndir. Sama sagan; allar myndir í móðu, eins og allt sem átti eftir að gerast þennan dag,“ skrifar hann um það sem gerðist föstudaginn 18. desember.

Hann bætir síðar við frá sama degi: „Þetta var svo skrýtið, því þarna birtist allt í einu heilt hús fyrir framan mig, eða okkur því franskur Seyðfirðingur grípur í öxlina á mér og segir sjáðu, sjáðu nýja húsið! Ég svara honum: sjáðu þarna uppi; fjallið er að hrynja á bæinn, sjáðu bílana og sjáðu allt fólkið sem syndir í fjallinu. Þá kom heyrnin og drunurnar. Þú fyllist ekki almennilega skelfingu nema hafa heyrt þær.

Húsið Breiðablik.
Húsið Breiðablik. Ljósmynd/Kristjan Torr

Kristján, sem hefur búið í fjögur ár á Seyðisfirði, lýsir einnig leit sinni að kettinum sínum Blíðu sem varð eftir á heimili hans: „Byrjar kvíðinn því við eigum kisu sem er búin að vera ein heima í fimm daga síðan á þriðjudaginn. Gúgla hvað kettir lifa lengi án vatns og spáin er svört. Þegar við fáum SMS um að Seyðisfjörður opni ekki á næstunni skjótast grafískar hugsanir um kisuna okkar og hvernig hún þornar til dauða í mannlausum bæ á heimsenda hnattrænnar hlýnunar.“

„Leiðinlegi gaurinn“

Þegar Kristján Þór er spurður nánar út í færsluna segist hann hafa verið með myndavélina á lofti þangað til stóra aurskriðan féll á bæinn. Þá tóku aðrir hlutir við, meðal annars að sækja hana Blíðu. „Það voru aðrir með gæludýr og mér fannst svolítið lítil áhersla lögð á að bjarga þeim,“ segir hann en skilur það samt vel í ljósi þeirrar ringulreiðar sem var uppi.

Í bátnum á leiðinni að sækja Blíðu.
Í bátnum á leiðinni að sækja Blíðu. Ljósmynd/Kristjan Torr

Kristján bætir við að hann hafi verið „leiðinlegi gaurinn“ sem hafi þrýst á björgunarsveitirnar um að fá aðstoð vegna kattarins. Á endanum komst hann að húsi sínu á gúmmíbát þar sem Blíða fannst heil á húfi. Hún er núna komin til Reykjavíkur. „Hún er orðin, ekki 101 rotta heldur 101 köttur núna. Hún er allavega að setja sig í þær stellingar,“ segir hann og hlær.

Blíða var flutt á milli staða í þessu búri.
Blíða var flutt á milli staða í þessu búri. Ljósmynd/Kristjan Torr

Sjálfur býr hann enn á Seyðisfirði í húsi vinkonu sinnar þar til hann fær að snúa aftur í húsið sitt um leið og hættuástandi hefur verið aflétt. Tvívegis hefur hann farið í húsið á báti og slapp það sem betur fer við skemmdir.

Ótrúlegt að enginn hafi farist

Kristján varð vitni að því þegar stóra aurskriðan féll og segir merkilegt að enginn skuli hafa farist. „Ég var handviss um að fjöldi hafi látið lífið og það var ótrúlegt að það hafi ekki gerst,“ segir hann og bætir við að hann hafi sjálfur flúið af vettvangi. Þegar hann hitti fólkið sem bjó í húsunum sem urðu fyrir skriðunum,  ásamt bæjarstarfsmönnum sem höfðu verið á svæðinu, í félagsheimilinu Herðubreið létti honum mjög.  

Ljósmynd/Kristjan Torr

Almennt séð hefði hann viljað fá betri upplýsingagjöf frá sveitarfélaginu í tengslum við hamfarirnar. Fundir voru vissulega haldnir en „margir fóru heim til sín og héldu jól á meðan fólk var heimilislaust og upplýsingalaust. Það var mjög erfitt,“ segir hann.

Kristján Þór Kristjánsson.
Kristján Þór Kristjánsson. Ljósmynd/Kristjan Torr

Í lok færslunnar á Facebook þakkar hann fyrir sig og hvetur fólk til að styrkja björgunarsveitina Ísólf á Seyðisfirði og Rauða krossinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert