Opnað fyrir framboð hjá Pírötum

Prófkjör Pírata hefst 3. mars. Opnað hefur verið fyrir framboð.
Prófkjör Pírata hefst 3. mars. Opnað hefur verið fyrir framboð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Opnað hefur verið fyrir skráningar í prófkjör Pírata fyrir alþingiskosningar næsta haust. Skráningin fer fram á heimasíðu flokksins og stendur til 3. mars, en þá hefst prófkjörið sjálft.

Prófkjörið er haldið í hverju kjördæmi fyrir sig, að undanskildum Reykjavíkurkjördæmunum tveimur sem halda sameiginlegt prófkjör.

Þegar hefur verið greint frá því að Jón Þór Ólafsson, þingmaður flokksins, muni ekki gefa kost á sér til áframhaldandi þingstarfa.

Í tilkynningu frá Pírötum segir að allir geti boðið sig fram í prófkjörinu, svo framarlega sem þeir skrái sig í flokkinn. Atkvæðisrétt munu allir hafa sem skráðir hafa verið í flokkinn í 30 daga eða lengur þegar prófkjör hefst. Eru því síðustu forvöð til að skrá sig í flokkinn 11. febrúar, ætli menn að greiða atkvæði.

Nánari upplýsingar um prófkjörin, skráningar í framboð og atkvæðisrétt má nálgast á prófkjörsvef Pírata.

mbl.is