Ríkinu gert að greiða 19 milljónir í EK1923-máli

Skúli Gunnar Sigfússon í Subway.
Skúli Gunnar Sigfússon í Subway. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtals þarf íslenska ríkið að greiða 19 milljónir í sakarkostnað í EK1923-málinu, en í gær voru Skúli Gunnar Sigfússon, sem gjarnan er kenndur við skyndibitastaðinn Subway, og tveir fyrrverandi framkvæmdastjórar Sjöstjörnunnar, sem er félag í eigu Skúla, sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur af öllum ákæruliðum í máli héraðssaksóknara vegna meintra skilasvika. Dómur málsins hefur nú verið birtur á vefsíðu dómstólsins.

Var ríkinu gert að greiða verjanda Skúla 6 milljónir í málsvarnarlaun, verjanda Guðmundar Hjaltasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjöstjörnunnar, 8 milljónir og verjanda Guðmundar Sigurðssonar, einnig fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins, 5 milljónir. Í þessari tölu er svo ótalinn kostnaður við rannsókn og saksókn málsins.

Sner­ist ákær­an í málinu um tvær milli­færsl­ur og eitt framsal á kröfu sem áttu sér stað frá janú­ar 2016 fram til ág­úst sama ár, en gerð var krafa um gjaldþrota­skipti 9. maí 2016 og úr­sk­urðað um gjaldþrota­skipti 7. sept­em­ber sama ár. Taldi héraðssaksóknari að millifærslurnar hafi verið til þess fallnar að rýra efnahag félagsins.

Eðlileg endurgreiðsla á láni vegna húsaleiguábyrgðar

Fyrst er um að ræða 21,3 millj­óna milli­færslu inn á reikn­ing Sjö­stjörn­unn­ar í mars 2016. Voru Skúli og Guðmund­ur Hjalta­son ákærðir fyr­ir að hafa í sam­ein­ingu látið milli­færa upp­hæðina. Óskaði Guðmund­ur eft­ir milli­færsl­unni og staðfesti Skúli hana við starfs­mann banka. Millifærslan var endurgreiðsla á láni sem Sjöstjarnan hafði veitt EK1923 til að standa skil á húsaleigu, en fjárhæðin hafði verið handveðsett Íslandsbanka vegna húsaleiguábyrgðar.

Í lok mars hætti EK1923 leigu húsnæðisins og var því ekki leigusamband lengur á milli aðila og kemur fram í dóminum að ekki hafi reynt á ábyrgðina þrátt fyrir vanskil EK1923 á húsaleigu, en leigusalinn fékk nýjan leigutaka inn í stað þess að ganga á ábyrgðina. Féll ábyrgðin því niður. Telur dómurinn að viðskiptalegar forsendur hafi legið fyrir því hvernig ábyrgðin var felld niður og að millifærslan hafi því verið endurgreiðsla á sérgreindum fjármunum sem voru til sérstakra nota í samræmi við upphaflega lánveitingu og áttu að endurgreiðast þegar skilyrði ábyrgðarinnar voru ekki lengur fyrir hendi.

Liður í innbyrðis fjárhagslegu uppgjöri

Næsti liður ákær­unn­ar nær til framsals á kröfu á hend­ur rík­inu sem EK1923 átti vegna út­hlut­un­ar á toll­kvóta, en var framseld til Stjörn­unn­ar (annars félags Skúla). Var heild­ar­upp­hæð kröf­unn­ar 24,6 millj­ón­ir auk vaxta. Var framsalið und­ir­ritað af Skúla og Guðmundi Sig­urðssyni, en í ákær­unni kem­ur fram að ekk­ert end­ur­gjald hafi komið fyr­ir. Ríkið féllst hins veg­ar aðeins á hluta kröf­unn­ar og greiddi Stjörn­unni 14,7 millj­ón­ir.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að á verknaðarstundu hafi Skúli og Guðmundur fyrst og fremst litið á kröfuframsalið sem lið í innbyrðis fjárhagslegu uppgjöri félagsins og ekki haft ásetning til að framselja kröfuréttindin án endurgjalds. Segir jafnframt að framburður vitna og önnur gögn styðji þetta og því beri að sýkna þá af þessum ákærulið.

Rannsóknin að nokkru leyti ófullkomin

Að lok­um var ákært fyr­ir greiðslur frá EK1923 þann 11. Ágúst 2016 til tveggja er­lendra birgja, en kröf­urn­ar voru gjald­falln­ar. Kem­ur fram í ákær­unni að Guðmund­ur Hjalta­son hafi fyr­ir hönd Skúla gefið þáver­andi prókúru­hafa EK1923 fyr­ir­mæli um að fram­kvæma greiðslurn­ar. Í dóminum kemur fram að fjórði aðili, stjórnarformaður félagsins hafi sent beiðni um millifærsluna, en ekkert sé vikið að hans hlut í ákærunni. Gat umræddur stjórnarformaður ekki skýrt umrædda beiðni frekar.

Þá liggja ekki önnur gögn fyrir sem sýna að Guðmundur hafi gefið fyrirmæli um millifærslurnar. Þá er sérstaklega vikið að því að upplýsingagjöf prókúruhafans sem framkvæmdi greiðslurnar hafi ekki verið nægjanlega skýr og stöðugur. Þá hafi rannsókn lögreglu á þessum hluta hafi verið að nokkru leyti ófullkomin og í „talsverðum mæli fyrst og fremst hverfast um kæru, gögn og upplýsingar sem bárust frá skiptastjóra.“ Því telur dómurinn óvarlegt að byggja á framburði prókúruhafans og eru Skúli og Guðmundur því sýknaðir einnig af þessum hluta.

Dómur héraðsdóms í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert