Maraþon fram undan hjá Guðmundi Felix

Guðmundur Felix er bjartsýnn á framhaldið.
Guðmundur Felix er bjartsýnn á framhaldið. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er náttúrlega maraþon,“ segir Guðmund­ur Fel­ix Grét­ars­son, aðspurður um framfarir sínar á síðustu vikum. Guðmundur Felix braut blað í sögunni þann 13. janúar þegar hann undirgekkst tvöfalda handleggjaágræðsluaðgerð, þá fyrstu sem framkvæmd hefur verið í heiminum.

Núna hálfum mánuði síðar segir Guðmundur Felix líðan sína vera mjög góða miðað við allt sem á hefur gengið.

„Þetta er ekkert síður óþægilegt en að láta taka af sér handleggina, svo þessar vikur hafa ekki verið auðveldar,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„En í dag er ég nokkuð góður, er farinn að sofa vel og stefnt er á að ég útskrifist af spítalanum 15. febrúar.“

Þá liggur leiðin á endurhæfingarspítala þar sem Guðmundur Felix mun dvelja í nokkra mánuði.

„Svo allir eru virkilega ánægðir með árangurinn,“ segir hann.

Engin hreyfigeta í handleggjunum enn

Guðmundur Felix hefur enga hreyfigetu né tilfinningu í handleggjunum enn, þar sem taugarnar hans eiga eftir að vaxa út í þá.

„Taugarnar í handleggnum vaxa núna um millimetra á dag, og því lengra sem þær komast því meiri vöðva get ég farið að spenna sjálfur og viðhalda,“ segir hann.

„Ef við miðum við millimetra á dag verð ég kannski kominn með taugar niður í olnboga eftir ár, og niður í fingur eftir tvö ár. En þar sem þetta var framkvæmt núna í fyrsta skipti veit enginn hvort taugarnar munu gróa alla leið.“

Í þeirri óvissu segir Guðmundur Felix velgengni aðgerðarinnar mælast út frá því hvort hann muni geta hreyft olnbogana í framtíðinni.

„Allt umfram það er bónus.“

Þykir vænt um nýju handleggina

Hvað kom þér mest á óvart í ferlinu öllu?

„Ætli það sé ekki hve fljótur ég var að venjast nýju handleggjunum,“ segir hann. „Mér þykir bara vænt um þá, ég lít á þá og þeir eru bara hluti af mér.

Það kom mér líklega mest á óvart hvað það var fljótt að gerast,“ segir Guðmundur Felix, en dæmi eru um að fólk sem hefur fengið svipaðar handágræðslur hafi látið taka þær af eftir aðgerðina þar sem ferlið eftir hana getur verið afar langt og strangt.

„Næstu þrjú árin á eftir að reyna alveg helling á mig,“ segir Guðmundur Felix. „Að mæta og vera í sjúkraþjálfun í sex til átta tíma á dag er ekkert smáræði. En ég hef haft svo langan tíma til að undirbúa mig, bæði andlega og líkamlega, svo miðað við alla biðina hérna úti eftir aðgerðinni finnst mér þrjú ár ekki vera neitt stórmál.“

Guðmundur Felix ásamt eiginkonu sinni, Sylwiu Gretarsson Nowakowsku.
Guðmundur Felix ásamt eiginkonu sinni, Sylwiu Gretarsson Nowakowsku. mbl.is/Hari

Ómetanlegur stuðningur

Árið 2013 flutti Guðmundur Felix til Lyon í Frakklandi, og þar beið hann í rúm sjö ár eftir aðgerðinni stóru sem hefur nú verið framkvæmd. Sú bið var nokkru lengri en haldið var í fyrstu.

„Það var erfitt að bíða svona rosalega lengi, en það sem ég held að ég græði á því er að ég er andlega betur undirbúinn,“ segir hann.

„Ég held líka að læknarnir hafi verið mun betur undirbúnir en ef við hefðum farið í þetta strax. Þeir eru búnir að vera með þetta í höfðinu í tíu ár og hafa æft þetta svo oft.“

Móðir Guðmundar Felix, Guðlaug Þórs Ingvadóttir, flutti upphaflega út til Frakklands með syni sínum honum til stuðnings. Nú býr Guðmundur Felix hins vegar með Sylwiu Gret­ars­son Nowakowsku, eiginkonu sinni sem hann kynntist á meðan biðinni stóð, en móðir hans heldur til í íbúð á hæðinni fyrir ofan þau. Hann segir stuðning hennar hafa verið ómetanlegan.

„Þegar svona slys gerast kemur það í raun fyrir alla fjölskylduna,“ segir Guðmundur Felix. „Móðir mín hefur hjálpað okkur alveg gríðarlega í gegnum þessi ár. Hún er einhver ótrúlegasta kona sem ég hef nokkurn tíma kynnst. Hún er kletturinn í mínu lífi,“ segir hann.

„Ég hefði ekki getað þetta hefði ég þurft að flytja út einn. Það er óhætt að segja að ég væri ekki hérna án hennar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert