Veitingastaðir skora á stjórnvöld

Frá Laugaveginum.
Frá Laugaveginum. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði hafa sent frá sér áskorun til stjórnvalda vegna fyrirhugaðra afléttinga á sóttvörnum innanlands.

Áskorunin er í þremur liðum. Í fyrsta lagi óska þau eftir því að fjöldi gesta veitingahúsa verði aukinn í 50 manns í hverju rými, í öðru lagi að sérstakar undanþágur verði leyfðar varðandi tveggja metra regluna og í þriðja lagi að afgreiðslutími verður færður til klukkan 23.00.

„Fyrir veitingastaði þá skiptir hver klukkustund miklu máli og því mikilvæg breyting að geta tekið við gestum til kl. 23.00. Að auki kallar SVF eftir skýrari reglum um hve langan tíma veitingahús hafa til að tæma staði eftir lokun,“ segir í áskoruninni.  

Látið verði af lögregluaðgerðum

„Þá óska samtökin eftir því að látið verði af stöðugum lögregluaðgerðum með tilheyrandi fréttaflutningi sem grefur undan greininni í heild sinni. Veitingastaðir hafa lagt sig fram um að starfa eftir settum reglum enda hafa smit ekki verið rakin til veitingastaða. Umræðan um veitingastaði, eftirlit og aðgerðir sem þeim tengjast, er hróplega úr takti við nauðsyn og raunverulega stöðu. Aðrar atvinnugreinar hafa margoft ekki náð að virða tveggja metra reglu eða fjöldatakmarkanir en ekki þurft að sæta stöðugum eftirlitsferðum, sektum og fjölmiðlaumfjöllun. Óskum við í framhaldinu eftir því að eitt gildi yfir alla og að veitingahúsum sem og öðrum atvinnugreinum verði veitt sama svigrúm til að takast á við faraldurinn og áskoranir honum tengdum,“ segir þar einnig.

Samtökin taka einnig undir sjónarmið rekstraraðila kráa og bara „sem hafa þurft að upplifa óútskýranlegt ósamræmi og rökleysu hvað varðar sóttvarnareglur sem þeim er gert að hlíta“.

mbl.is