Undanþágur fyrir íslenska sérnámslækna útilokaðar

Íslenskir skurðlæknar að störfum. Flestir læknar þurfa að sækja sitt …
Íslenskir skurðlæknar að störfum. Flestir læknar þurfa að sækja sitt sérnám utan landsteinanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Túlkun heilbrigðisráðuneytis Noregs á lögum um starfsréttindi heilbrigðisstétta útilokar möguleikann á því að íslenskir sérnámslæknar geti sloppið við að þurfa að endurtaka kandídatsár sitt þar í landi vegna skipulagsbreytinga á læknanámi. Heilbrigðisráðuneyti Noregs hefur ekki átt í samskiptum við íslenska heilbrigðisráðuneytið vegna þessa. 

Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðuneytis Noregs við fyrirspurn mbl.is. Þar er þó áréttað að þrátt fyrir að ráðuneytin hafi ekki átt í samskiptum vegna málsins geti norska ráðuneytið ekki útilokað að viðræður hafi átt sér stað á öðrum stjórnsýslustigum en viðurkenning starfsréttinda fellur undir starfssvið embættis landlæknis þar í landi. 

mbl.is greindi frá því í síðustu viku að ís­lensk­ir sér­náms­lækn­ar sem stunda sér­nám í Nor­egi sjái fram á að þurfa að end­ur­taka kandí­dats­árið sitt vegna breyt­inga á skipu­lagi lækn­is­náms þar í landi. Útlit er fyr­ir að sama staða komi upp fyr­ir ís­lenska sér­náms­lækna í Svíþjóð inn­an tíðar. 

Í viðtali við mbl.is kallaði Ragn­heiður Vern­h­arðsdótt­ir sér­náms­lækn­ir eft­ir aðgerðum frá stjórn­völd­um. Þá sagði hún að staðan geti haft veru­leg áhrif á ís­lenskt heil­brigðis­kerfi.

Í svari heilbrigðisráðuneytis Noregs kemur fram að sjö ára aðlögunartímabili hafi verið komið á áður en breytingarnar áttu sér stað. Þá hafi upplýsingum um fyrirhugaðar breytingar verið komið á framfæri víða.

Fá leyfið eftir sex ára nám

Hópur innan íslenska heilbrigðisráðuneytisins skoðar nú málið en ekki hafa fengist svör um það hvar sú skoðun sé stödd.

Umræddar skipulagsbreytingar tóku gildi í byrjun árs 2019. Í fyrirspurn mbl.is spurði blaðamaður hvers vegna gripið hefði verið til þeirra. Í svari ráðuneytisins segir að fram til ársins 2012 hafi norskt læknanám samanstaðið af sex ára námi og 18 mánaða starfsþjálfun sem kölluð var turnus. 

Þessu skipulagi var breytt árið 2012 og varð námið þá sex ára langt. Ástæðan var sú að talið var að næg starfsþjálfun væri innifalin í sex ára náminu. 

„Fyrir vikið gátu norskir læknakandídatar fengið læknaleyfi sitt eftir sex ára nám, en það var meira í takt við lengd grunnlæknanáms í öðrum ríkjum ESB/EES,“ segir í svari ráðuneytisins. 

Sjö ára aðlögunartímabil

Á sama tíma var ákveðið að fella hluta af turnus inn í nýstofnaðan fyrsta hluta sérnáms (LIS1). Til þess að ganga úr skugga um að breytingarnar hefðu ekki neikvæð áhrif á mismunandi hópa nemenda og lækna var ákveðið að koma á aðlögunartímabili. Samkvæmt svari ráðuneytisins var upplýsingum um fyrirhugaðar breytingar komið á framfæri víða. 

Aðlögunartímabilinu lauk í byrjun árs 2019  og þurfa nú allir sérnámslæknar í Noregi að klára LIS1, sem er sambærilegur kandídatsárinu sem er hluti af læknanámi hér á landi. 

Í fyrirspurninni spurði blaðamaður hvort það væri öruggt að þeir læknanemar sem hefðu lokið verklegu námi sem væri sambærilegt LIS1, til dæmis kandídatsári í íslensku læknanámi, gætu ekki fengið það metið sem LIS1. Við því segir ráðuneytið að samkvæmt lögum um starfsréttindi heilbrigðisstétta sé ekki mögulegt að meta þjálfun sem er hluti af grunnlæknanámi í einu ESB/EES ríki sem hluta af sérnámi í öðru ESB/EES ríki. 

mbl.is