Bólusettir starfsmenn í sýnatöku

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala. mbl.is/Ásdís

Enginn hefur greinst með Covid-19 í skimun sem stendur yfir á Landspítalanum vegna staðfests smits starfsmanns á göngudeild lyflækninga.

Verið er að skima eftir veirunni hjá tugum starfsmanna spítalans og stendur aðgerðin fram yfir hádegi í dag, að sögn Más Kristjánssonar, yfirlæknis á smitsjúkdómadeild.

Már segir að um 50% starfsfólks spítalans almennt hafi þegar verið bólusett við Covid-19. Hlutfallið hljóti að vera svipað á meðal þess starfsfólks sem talið er að hafi verið útsett fyrir veirunni vegna smitaða starfsmannsins.

Allir eru skimaðir, bólusettir og óbólusettir. „Það liggur ekki fyrir fullnaðarvissa um það hvort bóluefni verji þig fyrir að geta borið smit á milli einstaklinga, þó að við vitum að það verji þig fyrir veikindum,“ segir Már.

Snertiflötur á stigagangi

Enn liggur ekki fyrir hvernig smit umrædds starfsmanns kom til, en hann býr í sama stigagangi og manneskja sem vitað er til þess að hafi verið með Covid-19. Úr því að enginn samgangur var þeirra á milli hefur verið gert ráð fyrir að sameiginlegur snertiflötur í stigaganginum hafi valdið smitinu.

Már hefur ekki meiri upplýsingar en aðrir um það hvernig smit kann að hafa borist á milli fólksins.

„Við vitum alveg að veiran getur legið á dauðu yfirborði í langan tíma,“ segir Már. „Þar getur smitefnið í sjálfu sér verið og ef það er heilt og kemst í vit fólks getur það tekið við sér þar.“

Auk skimunarinnar meðal starfsfólks Landspítala er einnig verið að skima hundruð gesta sem voru í Hörpu á föstudaginn, þar sem smitaði starfsmaðurinn var staddur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert