Tengsl á milli mannanna

Daníel fannst fyrir utan heimili sitt í Kórahverfinu í Kópavogi …
Daníel fannst fyrir utan heimili sitt í Kórahverfinu í Kópavogi að morgni föstudags. mbl.is/Árni Sæberg

Einhver tengsl voru á milli Daníels Eiríkssonar sem lést á laugardaginn af áverkum sem hann hlaut þegar ráðist var á hann á föstudag og mannsins sem situr í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins.

Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að ekki liggi fyrir hversu mikil samskiptin hafi verið en þau hafi verið einhver í gegnum tíðina.

Maður á þrítugsaldri var á sunnudag úrskurðaður í Héraðsdómi Reykjaness í fimm daga gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn lögreglu á andláti Daníels. Hann segir andlátið hafa verið slys. 

Lögreglan telur að andlátið tengist ekki skipulagðri starfsemi og að það hafi borið að með aðkomu annars en ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort það hafi verið með ásetningi eða gáleysi. 

Að sögn Margeirs er lögreglan að reyna að átta sig á því hvað gerðist, meðal annars er beðið eftir niðurstöðum vettvangsrannsóknar og krufningar með tilliti til áverka. Lögreglan er einnig með fleiri gögn til rannsóknar, meðal annars hvort atvikið hafi náðst á eftirlitsmyndavélar.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort óskað verður eftir framlengingu gæsluvarðhalds og eins og staðan er núna er ekki talið að óskað verði eftir því að fleiri verði úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknarinnar. 

Eins og kom fram í tilkynningu lögreglu um málið lést karlmaður um þrítugt á Landspítalanum á laugardag en þangað var maðurinn fluttur á föstudagsmorgun eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás í Kórahverfinu í Kópavogi.

Tilkynning um málið barst lögreglu klukkan 8:51 að morgni föstudagsins langa en málsatvik voru í fyrstu mjög óljós. Þrír voru handteknir vegna málsins á laugardag en tveimur var síðar sleppt úr haldi og sá þriðji úrskurðaður í gæsluvarðhald.

mbl.is