Vonast eftir niðurstöðu skimunar upp úr hádegi

Daði og Gagnamagnið á æfingu.
Daði og Gagnamagnið á æfingu. AFP

Það kemur í ljós síðar í dag hvort fleiri úr íslenska Eurovision-hópnum eru smitaðir af kórónuveirunni. Talað er um 24 klukkustunda bið frá skimun þangað til niðurstöður fást og þá kæmi það í ljós síðdegis í dag. Fararstjórinn Felix Bergsson vonast samt til að niðurstaða fáist fyrr í dag, mögulega upp úr hádeginu.

Hópurinn fór í PCR-próf í gær, sem er nákvæmara en prófin sem hann hafði farið í fram að því sem fólu í sér stroku og svar á fimmtán mínútum.

Daði og Gagnamagnið við sérmerkta rafmagnsbíla í Rotterdam.
Daði og Gagnamagnið við sérmerkta rafmagnsbíla í Rotterdam. Ljósmynd/Rúnar Freyr Gíslason

Eitt skref í einu 

Engar ákvarðanir hafa verið teknir um að hvað tekur við ef í ljós kemur að fleiri úr hópnum eru smitaðir. „Menn eru bara að skoða það mál. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar um það en við munum láta vita af því þegar sú staða er ljós,“ segir Felix. „Við vitum að Ísland mun keppa í Eurovision, hvort sem Daði mun komast á sviðið eða ekki,“ bætir hann við.

Þar á hann við upptöku sem var tekin af æfingu hópsins og heppnaðist hún mjög vel og þykir mjög góð útgáfa af laginu.

„En auðvitað langar okkur að koma þeim á svið og fá viðbrögð frá þessum 3.500 áhorfendum sem eru í húsi en það er enn þá langur vegur áður en við vitum hvort það gerist,“ greinir hann frá. Ef svo fer að hópurinn megi ekki keppa í undanúrslitunum á fimmtudaginn mun hann því horfa á keppnina úr sóttkví frá hótelherbergjunum. „Við tökum eitt skref í einu í þessu og sjáum dag frá degi hvernig þetta verður.“

Daði og Gagnamagnið.
Daði og Gagnamagnið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Undrandi á smiti vegna bólusetningar

Aðspurður segir hann líðan manneskjunnar úr íslenska hópnum sem smitaðist af veirunni vera mjög góða og hún hafi engin einkenni. „Við erum dálítið undrandi á þessu. Við fórum í bólusetningu áður en við fórum út en þetta sýnir hversu skæð þessi veira er. Bæði var ekki liðinn það langur tími frá bólusetningunni og eins getur hún leynst þrátt fyrir bólusetningu og þrátt fyrir að einkenni séu væg eða jafnvel engin þá getur veiran leynst í viðkomandi,“ segir Felix.

Tíu dagar liðu frá því hópurinn var bólusettur og þar til smitið greindist. Hópurinn var bólusettur með bóluefni Janssen og þar er miðað við tvær til þrjár vikur þangað til full virkni hefur náðst.

Fararstjórinn Felix Bergsson, Daði Freyr og Rúnar Gíslason, einn skipuleggjenda …
Fararstjórinn Felix Bergsson, Daði Freyr og Rúnar Gíslason, einn skipuleggjenda í Eurovison-hópnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eyðileggi ekki lífsreynsluna 

Felix segir andann í hópnum vera eins og best verður á kosið miðað við aðstæður. Allir séu að jafna sig á fréttunum um smitið en haldi engu að síður ró sinni og séu í góðu sambandi sín á milli. „Ég held að það séu allir ákveðnir í að láta þetta ekki eyðileggja þessa góðu lífsreynslu sem Eurovision hefur verið hingað til og að taka það góða út úr þessu öllu saman.“

Einn hefur greinst með veiruna úr pólska Eurovision-hópnum sem er með Íslendingum á hóteli. Ekki hafa fleiri úr þeim hópi greinst. Hin löndin sem eru á hótelinu eru Malta og Rúmenía og þar hefur enginn greinst.

Aðrir gestir eru einnig á hótelinu og segist Felix ekkert vitað um hvaðan smitið kom upphaflega.

Daði og Gagnamagnið tilbúin fyrir fyrstu æfinguna í Rotterdam.
Daði og Gagnamagnið tilbúin fyrir fyrstu æfinguna í Rotterdam. Ljósmynd/Samband evrópskra sjónvarpsstöðva

Ætluðu í skoðunarferð til Amsterdam

Dagurinn í dag í Rotterdam átti að vera frídagur hjá íslenska hópnum og til stóð að fara í stóra skoðunarferð til Amsterdam. Ekkert verður af henni. Daði mun halda áfram að veita viðtöl í gegnum Zoom eins og verið hefur. Einnig átti að vera vinnudagur í dag fyrir Felix og félaga hjá RÚV til að skila af sér sjónvarps- og útvarpsefni heim til Íslands en það er í uppnámi eins og staðan er núna.

„Við viljum senda kærar kveðjur heim og þakklæti fyrir allar þær dásamlegu kveðjur og stuðning sem við erum að fá að heiman. Þær eru mikils virði,“ segir Felix.

mbl.is