„Ef rétt er þá fordæmi ég tilraunir Samherja“

Heimir Már Pétursson bauð sig fram til formanns BÍ í …
Heimir Már Pétursson bauð sig fram til formanns BÍ í nýliðnu kjöri, en laut í lægra haldi fyrir Sigríði Dögg. Skjáskot/RÚV

Heimir Már Pétursson, mótframbjóðandi Sigríðar Daggar til formanns BÍ í nýliðnu kjöri, segir að ef rétt sé greint frá tilraunum Samherja og starfsfólks til að hafa áhrif á innra starf Blaðamannafélagsins sé það „hinum sömu til ævarandi skammar og minnkunar“.

Eins og greint hefur verið frá fullyrða Kjarninn og Stundin í ítarlegum umfjöllunum sínum að Sam­herji hafi gert til­raun­ir til þess að hafa áhrif á for­manns­kjör Blaðamanna­fé­lags Íslands. Á það að hafa verið gert í von um að koma í veg fyr­ir kjör Sig­ríðar Daggar Auðuns­dótt­ur, sem er formaður fé­lags­ins í dag.

Yfirlýsing Heimis Más:

„Það var fyrst í dag að ég heyrði af meintum afskiptum einhvers hóps á vegum Samherja til að hafa áhrif á nýlegt formannskjör hjá Blaðamannafélagi Íslands þegar athygli mín var vakin á grein í Kjarnanum. Svo það sé sagt. Ef rétt er þá fordæmi ég tilraunir Samherja eða hverra annarra utan Blaðamannafélagsins til að hafa áhrif á innra starf félagsins.

Ég háði litla sem enga kosningabaráttu fyrir kjörið fyrir utan formlegan framboðsfund félagsins sem streymt var til félagsmanna. Ég hafði ekki samband við nokkurn félaga í aðdraganda kjörsins til að óska eftir stuðningi við mig né til að hvetja fólk til að kjósa ekki Sigríði Dögg Auðunsdóttur. Ég sendi hins vegar nokkrum tugum félaga skilaboð á lokadegi kosninganna til að minna á hvenær kosningu lyki. Annað ekki. Ég veit að nokkrir samstarfsmenn mínir sem vildu mér vel höfðu samband við nokkra vini sína og félaga á öðrum miðlum en okkar til að mæla með mér.

Enginn, ekki nokkur maður, sem tengist Samherja hafði samband við mig til að bjóða fram stuðning sinn. Ef þeir hefðu gert það hefði ég sagt þeim sömu, ekki svo vinsamlega, að láta af öllum slíkum afskiptum. Ef einhver í slagtogi við Samherja hefur beitt sér til að fá stuðning við framboð mitt hefur það alveg örugglega ekki gagnast mér. Þvert á móti. Blaðamannafélag Íslands er ekki fjölmennt félag og ég tel að félagsmenn flestir þekki nægilega vel til mín til að taka afstöðu til þess hvort þeir teldu mig heppilegan til forystu í félaginu okkar.

Ég bauð mig fram til að efla félagið í samskiptum þess við útgefendur og umheiminn almennt og til að verja þau grundvallargildi sem félagið byggir á og koma fram í lögum þess og siðareglum. Ef rétt er að Samherji og fólk á hans vegum hafi reynt að hafa áhrif á úrslit formannskjörs í BÍ er það þeim hinum sömu til ævarandi skammar og minnkunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert