Hagræði fólgið í nýju leiguhúsnæði

Teikning af fyrirhuguðu húsnæði Skattsins og Fjársýslu ríkisins í Katrínartúni …
Teikning af fyrirhuguðu húsnæði Skattsins og Fjársýslu ríkisins í Katrínartúni 6. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Leiga á nýju skrifstofuhúsnæði fyrir Skattinn og Fjársýsluna á að hafa í för með sér aukið hagræði og minni áhættu fyrir ríkissjóð. Leigusamningurinn var undirritaður í síðustu viku af Ríkiseignum og Íþöku fasteignum. Þetta kemur fram í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Samkvæmt tilkynningunni tekur leigusali á sig alla áhættu af hönnun og framkvæmd vegna húsnæðisins ásamt því að annast viðhald og rekstur á eigninni út leigutíma. Samningurinn um leigu nýs húsnæðis fyrir stofnanirnar tvær á einnig að skapa töluverð tækifæri til þess að losa eða selja annað óhagkvæmt húsnæði á vegum ríkisins á dýru markaðssvæði, en um er að ræða Tollhúsið við Tryggvagötu og húsnæði Skattsins við Laugaveg.

Undanfarin fimm ár hefur ríkið tekið á leigu rúma 22 þúsund fermetra á höfuðborgarsvæðinu undir starfsemi sýslumanns, Hafrannsóknastofnunar, Tryggingastofnunar, Sjúkratrygginga og Vegagerðarinnar. Ríkið hefur með þessu sparað fjárbindingu upp á yfir tíu milljarða og þar með minnkað lánsfjárþörf ríkissjóðs sem því nemur.

Með flutningum í nýtt skrifstofuhúsnæði verður unnt að reka starfsemi Skattsins og Fjársýslunnar í um þriðjungi minna húsnæði en nú er. Skatturinn mun þannig fara úr samtals 15.000 fermetrum á þremur stöðum niður í 9.700 fermetra húsrými og Fjársýslan úr 2.900 fermetrum niður í 2.000 fermetra. Þannig nemur húsrýmissparnaðurinn um 6.200 fermetrum. Þá mun einnig skapast tækfæri til að selja óhagkvæmt húsnæði á dýru markaðssvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert