Fólk í áfalli hýst á hóteli eftir aurskriðuna

Enginn slasaðist þegar aurskriða féll á tvö hús í Varmahlíð.
Enginn slasaðist þegar aurskriða féll á tvö hús í Varmahlíð. Aðsend/Erna Geirsdóttir

„Að sjálfsögðu voru öll í áfalli þegar þau komu hingað,“ segir Unnur Gottsveinsdóttir, hótelstjóri á Hótel Varmahlíð, í samtali við mbl.is. Nokkrir íbúar Varmahlíðar þurftu að leita til hótelsins vegna rýmingar á níu húsum eftir að aurskriða féll það í gær. 

„Það var mikil ringulreið hér til að byrja með og fólk í sjokki,“ bætir hún við. Hún segir það hafa verið sjálfsagt mál að hýsa fólk eftir aurskriðurnar og að pláss fyrir það hafi sloppið til.

Skriðan náði inn í hús

Íbúi annars hússins sem aurskriðan féll á segir að skriðan hafi náð inn í húsið hans. 

„Ég var ekki heima þegar þetta gerist. Aðkoman var þannig að þetta var meira en ég bjóst við, ég viðurkenni það,“ segir Alex Már Sigurbjörnsson, íbúi annars hússins sem aurskriða féll á í Varmahlíð í gær, í samtali við mbl.is.

„Þetta var þónokkuð, miðað við hverju maður bjóst við,“ bætir hann við. 

Hann segist hafa verið meðvitaður að einhverju leyti um möguleikann á hreyfingum á jarðvegi í hlíðinni en þetta hafi ekki verið yfirvofandi hætta sem hann hafi verið látinn vita af. 

„Það er búinn að vera sígandi jarðvegur fyrir ofan okkur heillengi,“ segir Alex. 

Ekki hefur verið mikil úrkoma í Skagafirði að undanförnu og má segja að aurskriðan hafi komið upp úr þurru. 

„Þetta kemur manni mikið á óvart og ég bjóst alls ekki við þessu í gær,“ segir Alex. Hús hans sem og níu önnur hús hafa verið rýmd. Hann heldur nú til hjá foreldrum sínum á Sauðárkróki og kemst ekki í húsið sitt til að meta skemmdir. 

Vonast til að geta bjargað einhverju

„Það eru einhverjar skemmdir en ég átta mig ekki á þeim eins og stendur. Það verður vonandi skoðað á næstunni. Það fór allavega aðeins inn í hús og skriðan náði upp á mitt hús á annarri hliðinni.

Ég veit í rauninni voða lítið og maður bíður núna frétta um hvort að maður fái að komast heim í dag og bjarga einhverjum hlutum,“ segir Alex. 

mbl.is