Katrín í heimsókn hjá Macron

Hér má sjá þau Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands og Emmanuel …
Hér má sjá þau Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands og Emmanuel Macron. forseta Frakklands.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir mikil tækifæri liggja í nánara samstarfi milli Íslands og Frakklands en hún fundaði með Frakklandsforseta, Emmanuel Macron, í dag og birti myndir frá heimsókninni á Facebook-síðu sinni. Hún sat einnig hátíðarkvöldverð í boði forsetans í gær, ásamt öðrum þjóðarleiðtogum og leiðtogum alþjóðastofnana.

Grænar lausnir, nýsköpun, loftslagsmál og jafnréttismál voru það helsta sem var rætt á fundinum. Þá fóru þau yfir íslenska fæðingarorlofskerfið og mikilvægi þess í tengslum við jafnrétti á vinnumarkaði og jafnlaunamál.

Ekki var hjá því komist að ræða heimsfaraldurinn í heimsókninni en svo var slegið á léttari strengi í tengslum við menningarleg tengsl Íslands og Frakklands, viðskipti landanna og Norðurslóðamál.

Katrínu sagði fundinn hafa verið góðan og ljóst sé að mikil tækifæri séu auknu samstarfi milli þessara tveggja ríkja. 

 „Það eru mikil tækifæri í auknu samstarfi Íslands og Frakklands, ekki síst á sviði umhverfis- og jafnréttismála. Ég og forsetinn ræddum sérstaklega endurnýjanlega orku og áætlanir landanna í þeim efnum og málefni hafsins, ekki síst plastmengun. Þá ræddum við jafnréttismál, sérstaklega út frá vinnumarkaðnum og launajafnrétti. Ég ræddi sérstaklega mikilvægi þess að báðir foreldrar taki þátt í uppeldi barna sinna til að tryggja jafnrétti á vinnumarkaði og aukin lífsgæði fyrir fjölskyldur.“ Þetta er haft eftir Katrínu í fréttatilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Ástæðan fyrir því að Katrín er stödd í París er að þar fer nú fram opnun átaksverkefnisins UN Women, Kynslóð jafnréttis. Er ráðstefnan haldin í samstarfi við frönsk stjórnvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert