„Of seint brugðist við“

Erna og Anna telja báðar heilbrigðisyfirvöld of svifasein. Ákveðið hefur …
Erna og Anna telja báðar heilbrigðisyfirvöld of svifasein. Ákveðið hefur verið að flytja rannsóknir til Landspítalans eftir áramót. mbl.is/Sigurður Bogi

„Að okkar mati er of seint brugðist við,“ segir Erna Bjarnadóttir, stofnandi facebookhópsins Aðför að heilsu kvenna, um þá ákvörðun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að flytja rannsóknir á leghálssýnum til Landspítalans.

„Í fyrsta lagi fagna ég því að það eigi að vinda ofan af þessu og að greiningarnar komi til landsins,“ segir Erna í samtali við mbl.is. Samráðsleysi við hópinn sem hún fer fyrir einkenni málið.

Erna Bjarnadóttir afhenti Svandísi Svavarsdóttur undirskriftalista í mars.
Erna Bjarnadóttir afhenti Svandísi Svavarsdóttur undirskriftalista í mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spyr sig hvað tekur við

Erna spyr sig hvað taki við þangað til eftir áramót:

„Hvernig verður undið ofan af þessu þangað til? Það verður að endurvinna traust á þjónustunni,“ segir hún. „Það hefur aldrei verið sagt frá röðum kvenna, að konur fari ekki í skoðanir sem þær eru boðaðar í en traust er alltaf áunnið. Við þurfum öll á því að halda að þessi þjónusta sé góð og allir upplifi sig örugga að nota hana.“

Leg­háls­sýni eru nú send til Dan­merk­ur til rann­sókn­ar eft­ir að starf­sem­in færðist frá Krabba­meins­fé­lag­inu til Heilsu­gæsl­unn­ar um ára­mót­in og sú ákvörðun hefur verið gagnrýnd nokkuð harðlega.

Heilbrigðisráðherra ákvað í framhaldinu að hefja viðræður við heilsugæsluna og Landspítalann, í þeim tilgangi að flytja rannsóknirnar heim.

Í gær var svo tilkynnt að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefði tekið ákvörðun um að hefja und­ir­bún­ing að því að rann­sókn­ir á leg­háls­sýn­um verði flutt­ar til Land­spít­al­ans.

Anna Kolbrún Árnadóttir þingmaður Miðflokksins.
Anna Kolbrún Árnadóttir þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Telur ólíklegt að tímalínan standist

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins sem situr í velferðarnefnd, segir að málið taki of langan tíma. 

„Það á að semja við Krabbameinsfélagið núna og senda þetta síðan á Landspítalann. Það er klárlega brúin sem við getum notað,“ segir Anna. 

Hún telur ólíklegt að Landspítalinn verði í stakk búinn til að taka við rannsóknunum um áramót, þar sem þörf er á að stækka húsnæðið svo unnt sé að hýsa starfsemina. 

„Þetta er allt í klessu, sama hvar ber niður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert