Aftakaatburðir verði algengari

Í skýrslunni kemur fram að nú sé enn greinilegra en …
Í skýrslunni kemur fram að nú sé enn greinilegra en áður að athafnir mannkynsins eru meginorsök margvíslegra breytinga á loftslagi. Jöklar hafa hopað mikið, stóru ísbreiðurnar á Suðurskautslandinu og Grænlandi eru að tapa massa og jöklar og ísbreiður utan heimskautasvæða hafa rýrnað mikið á síðustu 30 árum. AFP

Skýrari og ítarlegri gögn gefa til kynna að loftslagsbreytingar geri það að verkum að aftakaatburðir á borð við ákafari rigningu, öfgar í hitabylgjum og þurrka verði algengari og afdrifaríkari en áður. Þetta er ein af meginniðurstöðum skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem kom út í dag. 

Skýrslan er viðamikil og fjallar um breytingar sem hafa átt sér stað í lofthjúpi, hafi, freðhvolfi, á landi og í lífríki. Hún er fyrsti hluti 6. ritraðar nefndarinnar um loftslagsbreytingar og er unnin af vinnuhópi sem fjallar um náttúruvísindi og vísindalega þekkingu á breytingum á veðurfari og loftslagskerfinu. Í skýrslunni er kynnt besta mat hingað til á líklegri hlýnun og hækkun sjávarborðs í framtíðinni.

Í skýrslunni kemur fram að nú sé enn greinilegra en áður að athafnir mannkynsins séu meginorsök margvíslegra breytinga á loftslagi. Jöklar hafa hopað mikið, stóru ísbreiðurnar á Suðurskautslandinu og Grænlandi eru að missa massa sinn og jöklar og ísbreiður utan heimskautasvæða hafa rýrnað mikið á síðustu 30 árum. 

Aðalritarinn segir ekkert rými fyrir afsakanir

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna er ómyrkur í máli í yfirlýsingu sinni um skýrsluna:

„Hringingar viðvörunarbjalla eru ærandi og sönnunargögnin eru óhrekjanleg: gróðurhúsalofttegundir frá brennslu jarðefnaeldsneytis og eyðing skóga eru að kæfa plánetuna okkar og setja líf milljarða manna í hættu.“

„Þessari skýrslu ber að vera rothögg fyrir kola og jarðefnaeldsneyti áður en þau ganga af plánetunni dauðri. Ríkjum ber að hætta allri nýrri olíuleit og -vinnslu. Frá og með 2030 þarf að ferfalda sólar- og vindorkuframleiðslu og þrefalda fjárfestingar í endurnýjanlegri orku. Þetta er nauðsynlegt til þess að ná því marki að nettó losun gróðurhúsalofftegunda verði engin um miðja öldina.“

„Ef við leggjumst öll á eitt núna, getum við afstýrt loftslagshamförum. En eins og skýrslan sem kom út í dag sýnir fram á megum við engan tíma missa og það er ekkert rými fyrir afsakanir. Ég treysti því að oddvitar ríkja og aðrir sem hlut eiga að máli tryggi að COP25, loftslagsráðstefnan verði árangursrík.“

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna.
Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna. AFP

Meiri öfgar síðan 1950

Skýrslan sýnir að síðan 1950 hafa verið meiri öfgar í ákafri úrkomu og þurrkum og almennt meiri breytileiki í úrkomu víða á jörðinni. Athafnir manna hafa haft áhrif á þessar breytingar og hafa orðið breytingar á úrkomumynstri víða um heim, þar með talið monsún-rigningum. Auk þess hafa hitabeltislægðir breyst og ná nú fleiri að verða öflugir fellibylir og ákafleg úrkoma fylgir þeim.

Við áframhaldandi hlýnun má gera ráð fyrir áframhaldandi breytingum á hnattrænni hringrás vatns, að almennt verði meiri uppgufun raka og meiri úrkoma þegar litið er til jarðarinnar allrar þótt staðbundið geti þurrkar aukist. 

Samkvæmt þróaðri reikningum en áður hafa verið tiltækir er áætlað að meira en helmingslíkur séu á að hlýnun nái 1,5°C snemma á fjórða áratug þessarar aldar, sem er fyrr en gert var ráð fyrir í sérstakri skýrslu nefndarinnar sem kom út árið 2018.

Verði ekki gripið til mikils samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda mun að meðaltali hlýna meira en um 1,5°C og jafnvel 2°C á öldinni.

Flóð geta orðið tíðari.
Flóð geta orðið tíðari. AFP

Rýrnun sexfaldast

Rýrnun íss á suðurhveli hækkar sjávarborð við Ísland meira en rýrnun ísbreiðunnar á Grænlandi. Þá hefur rýrnun Grænlandsjökuls sexfaldast á síðustu þremur áratugum og ísbreiðan á Suðurskautslandinu tapað miklum massa. 

Hafísútbreiðsla á norðurhveli hefur dregist mjög mikið saman. Þótt margir ferlar komi hér við sögu er ljós að athafnir mannkyns hafi haft veruleg áhrif um allt freðhvolfið. 

Á heimsvísu hækkaði sjávarstaða hraðar á síðustu öld en í að minnsta kosti 3.000 ár, að meðaltali um 20 sentimetra á milli 1901 og 2018. Hraði hækkunarinnar jókst eftir því sem leið á síðustu öld og voru athafnir manna mjög líklega leiðandi þáttur í þessum breytingum síðan 1971.

Því er spáð að verði ekkert aðhafst verði mjög líklegt að fyrir miðbik 21. aldarinnar verði Norðuríshafið að minnsta kosti íslaust að mestu að sumarlagi. Hlýnun mun einnig auka bráðnun sífrera og minnka árstíðabundna snjóþekju. 

Hitabylgjur og þurrkar gætu orðið æ tíðari ef ekki verður …
Hitabylgjur og þurrkar gætu orðið æ tíðari ef ekki verður gripið inn í. AFP

Horfurnar dökkar

Í skýrslunni segir að nánast öruggt sé að sjávarstaða muni halda áfram að hækka. Í þeirri sviðsmynd þar sem mest er lofað eru efri mörk hækkunar um einn metri í lok aldarinnar en einn til tveir metrar um miðbik næstu aldar. Ekki er hægt að útiloka að hækkunin verði mun meiri, allt að tveir metrar í lok þessarar aldar og fimm metrar um miðbik þeirrar næstu, því mikil óvissa ríkir um stöðugleika ísbreiðna á Grænlandi og Suðurskautslandinu. 

Ónóg þekking er á hröðum og hugsanlega óafturkræfum breytingum og því er ekki hægt að útiloka breytingar innan loftslagskerfisins sem eru afdrifaríkar en líklegar, til dæmis í hafhringrás og massatapi íshvela. Líkur á hruni á ísbreiðum Suðurskautslandsins vaxa með tíma. 

Þá er talið mjög líklegt að dragi úr styrk lóðréttrar hringrásar Atlantshafsins á 21. öld, en ekki er víst hversu mikið. Miðlungsvissa er fyrir því að hringrásin hrynji ekki, en slíkt myndi hafa mikil svæðisbundin áhrif á veðrakerfi og úrkomu, allt frá kólnun á sumum svæðum og meiri hlýnun á öðrum og jafnvel til breytinga í monsúnkerfum og monsúnúrkomu. 

Áhrif á Ísland

Breytingar á einstökum þáttum í loftslagskerfisins geta haft afleiðingar á Íslandi samkvæmt skýrslunni. Meðal þeirra eru hlýnun sífrera í fjöllum og hop jökla sem fylgir aukin skriðuhætta, og einnig getur aukin ákefð úrkomu eða rigning í stað snjókomu að vetrarlagi aukið skriðuhættu. 

Breytingar á hafstraumum í Norður-Atlantshafi geta orðið afdrifaríkar hér á landi en á meðal ólíklegra en afdrifaríkra breytinga er óstöðugleiki ísbreiðanna á Suðurskautslandinu og Grænlandi þar sem jöklarnir kelfa í sjó fram. 

António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að skýrslan sé rauð aðvörun fyrir mannkynið“.

Hringingar viðvörunarbjallanna eru ærandi og sönnunargögnin eru óhrekjanleg: gróðurhúsalofttegundir frá brennslu jarðefnaeldsneytis og eyðing skóga eru að kæfa plánetuna okkar og setja líf milljarða manna í hættu,“ segir aðalframkvæmdastjórinn í yfirlýsingu.

Aurskriður gætu orðið tíðari þar sem úrkoma fellur sem rigning …
Aurskriður gætu orðið tíðari þar sem úrkoma fellur sem rigning en ekki snjór að vetrarlagi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert