Óeðlilegt ef B-2 væru ekki að æfa hér

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er ekki óeðlilegt, þó að vélarnar hafi verið hér nokkuð lengi en gert er ráð fyrir að þær haldi á brott á næstunni,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í samtali við mbl.is um veru þriggja sprengjuþota á Keflavíkurflugvelli. 

Þoturnar sem eru af gerðinni Nort­hrop Grumman B-2, lentu hér á landi fyrir tveimur og hálfri viku. Viðlíka vélar hafa ekki haft viðveru hér á landi.

Skiptir máli að þekkja til aðstæðna

„Þetta er í samræmi við það sem er að gerast í öryggismálum í Evrópu og hér á þessu svæði. Æfingar sem þessar hafa verið að fara fram í Evrópu að undanförnu,“ útskýrir Guðlaugur og segir að vera vélanna hér sé hluti af gistiríkjastuðningi Íslands við bandaþjóðir okkar, en vélarnar æfa nú á norðurslóðum. 

„Það skiptir máli fyrir okkur að hér sé æft reglulega og það öryggisnet sem við reiðum okkur á þekki vel til aðstæðna.“

B-2-þota Bandaríkjahers.
B-2-þota Bandaríkjahers. Ljósmynd/Bandaríkjaher/Heather Salazar

Starfsfólk Landhelgisgæslunnar tekur þátt

Er öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli ekki fyrst og fremst hugsað fyrir loftrýmisgæslu?

„Kafbátaleitin er líka fyrirferðarmikil. Það er í sjálfu sér ekki bundið við neina þætti, þetta er bara sú starfsemi sem hefur verið langfyrirferðarmest.

Okkar varnir byggjast fyrst og fremst á veru okkar í Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin. Þess vegna erum við með búnað og aðstöðu hér, til að taka á móti þeim aðilum sem þurfa að sinna vörnum. Aðkoma Íslands að þessum æfingum felst fyrst og fremst í gistiríkjastuðningi en starfsfólk Landhelgisgæslunnar og starfsstöðvar Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli kemur að æfingunni.“

Raunveruleikinn sem við horfum á 

Er þetta nýr raunveruleiki sem við eigum að venjast? Að hér séu sprengjuflugvélar við æfingar?

„Við þekkjum það að út af stórauknum vígbúnaði á þessu svæði erum við að sjá aukningu til varnarmála í öllum löndum sem við berum okkur saman við. Aukningin er mest, frá fyrri heimsstyrjöld, hjá Svíum til dæmis.

Það sama má segja um Noreg og hin Norðurlöndin. Þetta endurspeglar þá stöðu sem er uppi. Öll lönd í Atlantshafsbandalaginu hafa stóraukið framlög sín á undanförnum árum. Vendipunkturinn var árið 2014 eftir atburðina á Krímskaga.

Það er raunveruleikinn sem við horfum fram á. Þetta er breytt umhverfi og bandalagsríki okkar hafa brugðist við eins og við.“

B-2-kjarnasprengjuflugvél í Keflavík.
B-2-kjarnasprengjuflugvél í Keflavík. Ljósmynd/Bandaríski flugherinn

Ekki vegna þess að þeir hafa ekkert betra að gera

Aldrei fyrr hafa sprengjuflug­vél­ar af þess­ari gerð haft svo langa viðkomu hér á landi, en B-2 lenti fyrst í Kefla­vík árið 2019 og stoppaði stutt við. Aðeins eru til tuttugu slíkar í heiminum og þrjár þeirra hafa verið hér á landi í nokkurn tíma. Verður þetta ekki að flokkast til töluverðra tíðinda?

„Ég veit í sjálfu sér ekki hvort hægt sé að segja að það sé mjög merkilegt. Þær hafa verið við æfingar í Evrópu og kynna sér aðstæður þar. Það væri mjög skrýtið ef þær kæmu ekki við hérna.

Stóra myndin er þessi: Umfang loftrýmisgæslu og kafbátaleitar hefur aukist verulega hér við land undanfarin ár og það er ekki vegna þess að þeir hafa ekkert betra að gera.“

Stóraukin kafbátaumferð

Guðlaugur segir ekki gott að segja hver tilgangur ferða rússneskra herskipa var fyrir norðan land sem greint var frá á mbl.is nýlega. 

„Það er rétt að hafa í huga að þó að þeir hafi verið innan efnahagslögsögunnar voru þeir á alþjóðlegu hafsvæði, með tilliti til siglinga og annarra athafna. Landhelgisgæslan fylgdist með förum skipanna sem yfirgáfu efnahagslögsöguna nokkrum dögum síðar.

Það er ekki gott að segja hver tilgangur þessara skipaferða var. Hitt er víst að Rússar hafa byggt upp hernaðargetu sína á norðurslóðum. Birtingarmynd þess er til dæmis stóraukin kafbátaumferð í Norður-Atlantshafi, sem gefur svo sannarlega ástæðu til aukinnar árvekni af hálfu Íslands og annarra bandalagsþjóða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert