Fjöldi samráðsmála bíða úrvinnslu ráðuneyta

Enn er beðið eftir niðurstöðum í níu málum frá árinu …
Enn er beðið eftir niðurstöðum í níu málum frá árinu 2018 og 30 málum frá 2019. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Beðið er eftir niðurstöðum úr samráði í samráðsgátt stjórnvalda í fjölda mála og eru dæmi um að niðurstöður samráðsferlis hafi verið í vinnslu frá árinu 2018. Jafnframt eru dæmi um að reglugerðir sem hafa verið settar í samráð hafi verið samþykktar af ráðherra og tekið gildi án þess að niðurstöður hafi verið birtar í gáttinni. Það er því í að minnsta kosti sumum tilfellum engin leið fyrir umsagnaraðila að ganga úr skugga um að tekið hafi verið tillit til umsagna þeirra eða tillögum hafnað á málefnalegum grunni.

Frá því að rafrænni samráðsgátt var komið á hefur almenningur og lögaðilar skilað 7.881 umsögn um 942 mál. Ekki hafa verið birtar niðurstöður í 9 málum frá árinu 2018 og 30 málum sem kynnt voru 2019. Þá bíða nú 235 mál þess að niðurstöður úr samráði verða birtar í samráðsgáttinni.

mbl.is

Færri brot?

Þegar samráðsgátt stjórnvalda var komið á 2018 var það í þeim tilgangi að „auka gegnsæi í laga- og reglusetningarferlinu þannig að hagsmunaaðilar geti áttað sig á hvað er í vændum og komið sínum sjónarmiðum að á öllum stigum“ og „bæta vinnubrögð við undirbúning laga- og reglusetningar og við stefnumótun þannig að stjórnvöld fari í gegnum tiltekin skref sem stuðla að vandaðri vinnubrögðum“ að því er fram kom í skýrslu vinnuhóps forsætis- og innanríkisráðuneytis um virka og gegnsæja samráðsferla á netinu, sem skilaði skýrslu sinni árið 2015.

Vísaði vinnuhópurinn til þess að á vettvangi OECD hefði verið litið á samráð sem verkfæri fyrir stjórnvöld til að stuðla að auknum gæðum í reglusetningu og stefnumótun og aukinni sátt og vitund hagsmunaaðila um lög, reglur og stefnur. Þessir þættir ásamt auknu gagnsæi séu til þess fallnir að leiða til „færri brota á reglum þar sem aðkoma hagsmunaaðila stuðlar að farsælli innleiðingu“.

Hins vegar gerðist það 7. september síðastliðinn að togarinn Vestmannaey VE-054 var staðinn að meintum ólöglegum veiðum á lokuðu svæði og bar skipstjórinn fyrir sig að niðurstöður samráðs vegna fyrirhugaðrar reglugerðar um tímabundið bann við veiðum með fiskibotnvörpu út af Glettinganesi hefðu ekki verið birtar í samráðsgáttinni. Samkvæmt upplýsingum í gáttinni hafa niðurstöðurnar verið í vinnslu hjá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu frá 13. júní, en reglugerðin var birt á vef reglugerðasafns ríkisins 23. júní.

Um málið bárust sex umsagnir og ekki allar á einu máli en ekkert liggur fyrir hvernig var unnið úr þeim þrátt fyrir að samþykktir ríkisstjórnarinnar gefi tilefni til að telja að ráðuneyti beri að greina frá hvernig var brugðist við umsögnunum.

Samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna – sem var breytt til að rúma nýja starfshætti vegna samráðs – segir að í „greinargerð með lagafrumvarpi skal rakið [...] hvernig samráði hafi verið háttað, hvaða sjónarmið komu fram og hvort brugðist hafi verið við þeim, og hvaða áhrif samráðið hafi haft á frumvarpið“.

Beðið svars

Mál sem bíða enn eftir niðurstöðum úr samráði dreifast á öll ráðuneyti en þau mál sem beðið hafa lengst eru frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu: drög að reglugerð um fráveitur og skólp, og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu: drög að nýrri reglugerð um mælingu skipa. Í tilfelli þessara mála hafa niðurstöður verið í vinnslu frá 25. apríl 2018. Fyrirspurn vegna seinagangsins var send báðum ráðuneytunum á fimmtudag en ekkert svar hafði borist blaðamanni síðdegis í gær.

Skrifstofa löggjafarmála í forsætisráðuneytinu á að tryggja eftirfylgni með framkvæmd samráðsgáttarinnar með birtingu árlegrar umfjöllunar „um framkvæmd opins samráðs á netinu af hálfu ráðuneyta“, eins og fram kemur á vef samráðsgáttarinnar.

Í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn blaðamanns var vísað í ársskýrslu ráðuneytisins. Þar er að finna yfirlit yfir málafjölda og fjölda umsagna en ekki skýringar á seinagangi. Hét forsætisráðuneytið því að veita frekari skýringar eftir helgi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert