Varhugavert að hlaða rafmagnshlaupahjól í íbúðum

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, segir brunan í gær áminningu …
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, segir brunan í gær áminningu um hættu stærri rafhlaða. Samsett mynd

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu segir það ekki eiga að vera fyrsta kost fólks að hlaða faratæki á borð við rafhlaupahjól inni í íbúðunum sínum. Þá sé mikilvægt að fólk hafi allan búnað vel uppfærðan, bæði brunavarnir og hleðslubúnaðinn.

„Eins og maður segir alltaf, eitt útkall í svona er einum of mikið,“ segir Jón Viðar en flest bendir til þess að bruna í íbúð í Bríetartúni í gærkvöldi megi rekja til rafhlaupahjóls. Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti í samtali við mbl.is í dag að kenning lögreglu væri sú að eldurinn hafi komið til vegna þess.

Þekkt í nágrannalöndum

Jón segir þetta þekkt í nágrannalöndum að stærri rafhlöður valdi eldsvoðum. „Þannig að þetta er ekki einsdæmi því miður. Það hefur líka komið upp með rafhjól hérlendis og við höfum farið í nokkur útköll sem hafa valdið mismiklum skaða. En líka útköll varðandi hleðslu á ýmsum öðrum hlutum. Jafnvel eitthvað sárasaklaust eins og þegar fólk er að hlaða símann sinn upp í rúmi og hleðslusnúran er orðin slitin eða hæpin. Það er svo margt sem þarf að huga að.“

Jón segir allan varan góðan þó tæknin kunni að vera sjálfsögð. „Allt eru þetta nauðsynleg og skemmtileg tæki sem maður vill hafa í kring um sig en maður þarf að huga að því alltaf að yfirfara búnaðinn og gæta a­ð því að snúrur og annað séu í lagi.“

Hundruð rafhlaupahjóla eru í leigu á höfuðborgarsvæðinu.
Hundruð rafhlaupahjóla eru í leigu á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýlegir hlutir geta líka bilað

Rafhlaupahjól hafa rutt sér til rúms sem nýr fararskjóti síðastliðin tvö til þrjú ár. Fólk getur leigt þau út eða keypt sér til einkanota og þá hlaðið þau heima hjá sér. Í ljósi þess hve nýtilkomin þessi hjól eru er ljóst að eintakið sem brann í gær hefur ekki verið ýkja gamalt.

„Með svo margt að það getur bilað þó það sé nýtt eða nýlegt,“ segir Jón Viðar og ítrekar að margt geti orsakað eldsvoða sem þessa:

„Stundum geta hlutirnir hitnað hratt ef það liggur annað uppi að hlut sem getur síðan kviknað í. Það er svo margt í þessu sem þarf að huga að, þetta er ekki alltaf þannig að rafhlöður springi.“

Ekki fyrsti kostur að hlaða inni í íbúð

Rafhlaupahjólin eru búin töluvert stærri rafhlöðum en til dæmis símar, úr og heyrnartól sem flestir eru vanir að hlaða innan veggja heimilisins. Aðspurður segir Jón þetta vissulega geta aukið brunahættu:

„Þetta eru mun stærri rafhlöður, þó þær séu misstórar eftir því hve mikil drægnin er. Skúturnar og rafhjólin eru að koma ný inn svo menn þurfa að fara mjög varlega með það. Að vera með þessa hleðslu inni í íbúð er ekki fyrsti kostur.“

Jón segir umræðuna þó þarfa og ítrekar mikilvægi hefðbundinna brunavarna: „Þetta minnir á að þegar kemur upp eldur, óháð orsök, þarf fólk að vera með allan viðvörunarbúnað í lagi. Það er ekki að ástæðulausu að reykskynjarar séu sífellt nefndir í þessu samhengi, þeir vekja fólk.“

Af vettvangi brunans í gær.
Af vettvangi brunans í gær. Unnur Karen
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert