Von á 30 Afgönum á næstu vikum

Forsætisráðuneytið neitaði að afhenda minnisblöð um málið, en svaraði með …
Forsætisráðuneytið neitaði að afhenda minnisblöð um málið, en svaraði með vísun í tölur um fjölda þeirra sem væru að koma frá Afganistan á næstu vikum. mbl.is/Ófeigur

Von er á um 30 Afgönum til Íslands á næstu vikum sem flóttafólki, en um er að ræða einstaklinga sem falla undir þá hópa sem íslensk stjórnvöld ákváðu að aðstoða sérstaklega. Til viðbótar hefur borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins verið í samskiptum við um 25-30 manns til viðbótar, en óvíst er hvenær sá hópur kemur til landsins. Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is. Rætt var um málið á ríkisstjórnarfundi á þriðjudaginn í síðustu viku.

Mbl.is óskaði eftir þeim minnisblöðum sem lögð voru fyrir á ríkisstjórnarfundinum varðandi málið en var synjað um þá beiðni. Í svarinu er hins vegar vísað í gögn úr minnisblaðinu þar sem fyrrnefndar tölur koma fram. Á dagskrá ríkisstjórnarfundarins bar málið heitið „aðgerðahópur vegna komu flóttamanna frá Afganistan“.

Tekið er fram í svarinu að staðan í Afganistan sé mjög flókin. „Hefðbundnar flugsamgöngur liggja niðri og er því erfitt að flytja fólk úr landi. Íslensk stjórnvöld þurfa því að reiða sig á samstarf við aðra um að koma fólki frá Afganistan,“ segir þar.

Uppfært 28. október: Í upphaflegri frétt kom fram að utanríkisráðuneytið væri í samskiptum við um 60 manns til viðbótar. Eftir að fréttin hafði verið birt hafði stjórnarráðið samband við mbl.is og upplýsti að um mistök væri að ræða. Réttur fjöldi væri 25-30 manns. Fréttin hefur verið uppfærð samkvæmt því.

mbl.is