Todmobile með töfra og tónleika

Hljómsveitin kom saman til æfinga í vikunni fyrir tónleikana í …
Hljómsveitin kom saman til æfinga í vikunni fyrir tónleikana í Eldborg í Hörpu næsta laugardagskvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Góðs má vænta næstkomandi laugardagskvöld þegar hljómsveitin Todmobile kemur saman að nýju eftir langt hlé og heldur tónleika í Hörpu. Fyrir um 30 árum var þetta eitt vinsælasta band landsins, sem átti vinsælustu popplögin og gaf út plötur sem seldust í hlössum. Spilaði á böllum og tónleikum um allt land og lög sveitarinnar voru í kvikmyndum, það er á tíma þegar mikil gróska var í íslenskri bíómenningu.

Kröftugur tónn á fyrstu plötu

Todmobile starfaði frá 1989 til 1993. Sveitina skipuðu Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson gítarleikari, söngkonan Andrea Gylfadóttir og Eyþór Arnalds sem lék á selló. Þau slógu kröftugan tón með hljómplötunni Betra en nokkuð annað sem kom út síðla hausts 1989. Því var fylgt eftir með tónleikum í Gamla bíói, og það var raunin í fyrsta sinn sem sveitin kom fram. Viðtökurnar voru góðar; spilverkið var þétt og lögin kröftug. Lagið Ég heyri raddir var eitt það vinsælasta þetta árið.

Andrea Gylfadóttir, Eyþór Arnalds og Þorvaldur Bjarni í viðtali á …
Andrea Gylfadóttir, Eyþór Arnalds og Þorvaldur Bjarni í viðtali á kaffihúsi við blaðamann Morgunblaðsins árið 2000. mbl.is/Jim Smart

„Já, Todmobile var band sem hafði töfra,“ segir Eyþór Arnalds. „Við öll höfðum bakgrunn í klassík. Andrea var og er góð söngkona og við Þorvaldur Bjarni menntaðir í tónsmíðum, auk þess að hafa verið í hljómsveitum frá unga aldri. Höfðum því tileinkað okkur agann sem þarf í verkefni eins og að halda úti tónlist. Við þrjú náðum vel að vinna saman, en galdurinn lá annars helst í því að erum afar ólík. Slíkt er oft uppskrift að góðum hlutum; tveir plús einn verða ekki ekki endilega þrír heldur jafnvel fjórir, fimm eða sex.“

Auk þríeykisins sem fyrr er nefnt voru í Todmobile sem fylgihnettir þau Eiður Arnarson bassaleikari, Kjartan Valdemarsson hljómborðsleikari og Ólafur Hólm trommari. Þetta er mannskapurinn sem spilaði á plötum Todmobile, er urðu fimm.

Lögin hafa elst vel

„Við vorum djarfhuga með titlinum Betri en nokkuð annað og svo héldum við áfram af fullum krafti,“ segir Eyþór. Platan Todmobile kom árið 1990, Ópera 1991, tónleikaplatan 2603 er frá 1992 og síðust er platan Spillt sem gefin var út 1993. Á þessum plötum eru mörg vinsæl lög, svo sem Ég heyri raddir, Stúlkan, Lof mér að sjá, Brúðkaupslagið og Stelpurokk og mætti svo lengi áfram telja. Þorvaldur Bjarni var aðallagahöfundur sveitarinnar. Þá átti hljómsveitin innkomu í bíómyndunum Veggfóðri og Stuttum frakka.

Eyþór, Andrea og Þorvaldur Bjarni á fyrstu árum sveitarinnar.
Eyþór, Andrea og Þorvaldur Bjarni á fyrstu árum sveitarinnar. Ljósmynd/Todmobile

„Já, ég held að lög Todmobile hafi elst nokkuð vel. Þar held ég að bæði komi til meðal annars bakgrunnur okkar Þorvaldar Bjarna úr námi í sígildri tónlist, þekking og kunnátta í tónsmíðum. Síðan eru plöturnar líka þaulunnar. Við gerð einnar vörðum við 1.000 tímum í hljóðveri, nostruðum við hvert lag og fullt af efni fór í ruslið,“ segir Eyþór.

Todmobile í sinni upphaflegu gerð starfaði allt til ársins 1993. Þau Þorvaldur Bjarni og Andrea héldu starfinu áfram, en Eyþór sneri sér að öðru. Hefur reyndar komið fram með Todmobile við einstaka tilefni síðan, síðast árið 2007 á tónleikum á Laugardalsvelli.

Eyþór með sellóið á balli í Njálsbúð 1992.
Eyþór með sellóið á balli í Njálsbúð 1992. Ljósmynd/Einar Bárðarson

„Árin fjögur með Todmobile voru mikil keyrsla. Hundruð tónleika, túrar um landið og alltaf kraftur,“ segir Eyþór. „Ég man eftir tónleikaferð um landið sem byrjaði í Bíóhöllinni á Akranesi. Þegar ég kom inn á sviðið missté ég mig illa svo hnéskelin færðist úr stað. Ég kippti hnéskelinni aftur inn án þess að hugsa. Ég stokkbólgnaði og gat mig illa hreyft á tónleikunum. Fór svo á sjúkrahús þar sem læknar gerðu að eymslunum en á eftir var ég draghaltur og átti í þessu lengi á eftir. En fall var fararheill; túrinn um landið var frábær,“ segir Eyþór, sem hlakkar til tónleikanna í Hörpu nk. laugardagskvöld. Þeir verða endurteknir í Hofi á Akureyri 20. nóvember. – Auk þeirra sem fyrr eru nefnd kemur Eyþór Ingi Gunnlaugsson söngvari fram með sveitinni á þessum tónleikum.

„Að vera í hljómsveit er góður skóli fyrir félagsþroska og tónlist – lög og stef – er ekkert annað en hugmyndir. Og tónlistin er alltaf í blóðinu. Fyrir tónleikana á laugardagskvöldið erum við búin að taka þrjár æfingar sem gengu vel. Talið var í og við náðum takti og réttum tónum eins og skot. Tónleikarnir á laugardagskvöldið hljóta því að verða góðir,“ segir Eyþór Arnalds að síðustu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert