„Ég þarf að fá lagalega ráðgjöf“

Agnieszka segist þurfa að fá lagalega ráðgjöf áður en hún …
Agnieszka segist þurfa að fá lagalega ráðgjöf áður en hún getur tjáð sig um hugsanlega formennsku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar, segist ekki geta svarað því strax hvort hún taki við sem formaður félagsins nú þegar Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður, stígur til hliðar. Hún hafi ekki verið búin undir þetta og viti einfaldlega ekki hvernig það gangi fyrir sig.

Sólveig sagði frá því á facebook-síðu sinni í gærkvöldi að hún hygðist segja af sér formennsku, en áður hafði hún átt fund með stjórn Eflingar og greint frá ákvörðun sinni. Ákvörðunin virðist hafa komið stjórnarmeðlimum í opna skjöldu.

„Ég þarf að fá lagalega ráðgjöf fyrst, því það var enginn búinn undir þetta. Ég get því ekki svarað á þessari stundu,“ segir Agnieszka í samtali við mbl.is.

Hún segir það jafnvel geta tekið einhverja daga að finna út úr því. „Við þurfum að heyra frá einhverjum hver næstu skref eru. Ég held að þetta hafi aldrei gerst áður.“

Aðspurð hvort hún telji að stjórnin geti setið áfram eftir að formaðurinn segir af sér vegna vantraustsyfirlýsingar starfsfólks, segir hún að stjórnin styðji allar ákvarðanir Sólveigar. Hún vilji engu bæta við það að svo stöddu.

Þá vill hún ekki gefa upp hvort stjórn Eflingar fundar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka