Þarf að fá staðreyndir og atvik mála fram

Skúli segir ekki endilega litið svo á að gagnaöflun sé …
Skúli segir ekki endilega litið svo á að gagnaöflun sé lokið með svörum sveitarfélaga. mbl.is/Eggert

Fjögur sveitarfélög og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa nú svarað umboðsmanni Alþingis sem óskaði eftir upplýsingum um aðskilnað barna frá samnemendum sínum og vistun þeirra í sérstökum rýmum grunnskóla. Upphaflega átti að skila inn svörum fyrir 1. nóvember síðastliðinn, en Hafnarfjarðarbær óskaði eftir fresti til 15. nóvember til að skila inn sínum svörum. Þau hafa nú borist.

Umboðsmaður er nú að skoða hvort frekari gagnaöflunar eða rannsóknar á málinu er þörf. „Það eru þá ýmsar leiðir, það geta verið viðtöl við foreldra, fagaðila, fagfélög og svo getur umboðsmaður heimsótt þessa staði. Það er einfaldlega verið að skoða hver verða næstu skref. Það er ekkert sjálfgefið að það sé litið svo á að gagnaöflun sé lokið með þessum svörum frá sveitarfélögunum,“ segir Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, í samtali við mbl.is.

Þá er ekki útilokað að kallað verði eftir upplýsingum frá fleiri sveitarfélögum, og þá skólum.

Skiptir ekki meginmáli hver sagði hvað 

Spurður hvort ekki þurfi að kanna hvort samræmi sé á milli þess sem foreldrar segja og lýsa og þeirra upplýsinga sem skólarnir eða sveitarfélögin gefa, segir Skúli:

„Það þarf að fá staðreyndirnar og atvik þessara mála fram áður en það er tekin einhver afstaða til þeirra. Það getur þó verið hægara sagt en gert að fá öll atvik og staðreyndir málsins fram í dagsljósið. En það er auðvitað það sem umboðsmaður er að gera núna.“

Ábendingar hafa borist frá foreldrum og eru þær fleiri og meira afgerandi en áður, líkt og fram hefur komið. Umboðsmaður mun kynna sér allar ábendingarnar en embættið er ekki með formlegar skýrslutökur

 „Við erum fyrst og fremst að afla upplýsinga sem við getum vísað til. Oft er það þannig að það er ekki gert undir nafni. Frá sjónarhóli umboðsmanns skiptir ekki meginmáli hver sagði hvað hvenær, eins lengi og við erum búin að fá góðan og réttan skilning á stöðunni eins og hún er.“

Áherslan fyrst og fremst á réttindum barna og aðbúnaði

Skúli leggur áherslu á að verið sé að skoða málið á tiltölulega almennum grundvelli. „Það er ekki verið að rannsaka einstök mál sem slík, heldur eru einstök mál frekar höfð til hliðsjónar til að skoða hvort þarna er um að ræða aðferðir sem þurfa þá frekari umfjöllunar við. Umfram allt erum við ekki að skoða hugsanleg brot eða misferli starfsmanna, það er ekki sjónarhorn eða áhersla umboðsmanns í þessari rannsókn. Það er fyrst og fremst réttindi þessara barna og aðbúnaður.“

Hann segir gagna aflað úr öllum áttum sem talið er að geti veitt upplýsingar og svo verði að sjá hvernig málið þróast. „Hvort viðbrögð innan kerfisins eru þannig að umboðsmaður telur rétt að doka við og sjá hvernig stjórnvöldum gengur að fjalla um þetta sjálfum, eða hvort það er þörf á því að það komi út einhvers konar viðbrögð frá umboðsmanni, sem yrðu þá í formi skýrslu, álits eða bréfa.“

Unnið eins hratt og hægt er  

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvenær niðurstöðu er að vænta í málinu, en Skúli segir allt gert til að hraða vinnunni eins og hægt er.

„Það er verið að reyna að vinna að þessu eins hratt og mögulegt er með þeim takmörkuðu burðum sem við höfum,“ segir Skúli, en bendir jafnframt á að á frumkvæðissviðinu, sem hafi þetta mál til skoðunar, séu aðeins tveir starfsmenn.

Þá sinnir sviðið bæði frumkvæðismálum og OPCAT-eftirliti. „Svona svo fólk átti sig á því að þótt við séum að reyna að bregðast við þessum málum, þá er þetta ekki stór stofnun og okkar burðir eru ekki ótakmarkaðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert