Niðurstöðurnar gætu haft áhrif á aðgerðir

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar á fundinum.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslensk erfðagreining hyggst leggja í rannsókn, í umboði sóttvarnalæknis, nú í næstu viku þar sem reynt verður að svara því hve víða veiran hefur dreift sér í samfélaginu. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, vonast til þess að rannsókninni ljúki öðru hvorum megin við þar næstu helgi. Niðurstöðurnar gætu haft veruleg áhrif á þær aðgerðir sem notast er við til þess að eiga við faraldurinn.

„Við áttum fund nú í morgun með sóttvarnalækni þar sem við vorum að skipuleggja þessa rannsókn. Við bíðum enn eftir hvarfefni sem við þurfum til að framkvæma rannsóknina en ég vonast til þess að við getum ráðist í þetta einhvern tímann í næstu viku,“ segir Kári þegar mbl.is náði af honum tali nú í hádeginu.

Reynslunni ríkari ári síðar

Markmið rannsóknarinnar er ósköp einfalt. Að skoða hversu víða veiran hefur náð að dreifa sér um samfélagið. Sambærileg rannsókn var framkvæmd í apríl í fyrra og kom þá á daginn að tvisvar sinnum fleiri höfðu orðið fyrir veirunni heldur en greiningar sögðu til um.

Persónuvernd úrskurðaði á sínum tíma að rannsóknin hefði reynst ólögleg út frá persónuverndarsjónarmiðum og hafði Kári orð á því nú um daginn að Íslensk erfðagreining léti það ekki stöðva sig. Ætluðu þeir sér frekar að gerast „síbrotamenn“.

Í rannsókninni sem framkvæmd var í fyrra var töluvert minni hluti þeirra sem sýktust einkennalausir og telur Kári þó nokkrar líkur á því að enn stærri hluti hafi orðið fyrir veirunni nú.

„Það eru í kringum 1.000 smit á dag sem greinast og stór hluti er einkennalítill, sem þá bendir til þess að stór hluti sé einkennalaus. Ég yrði því ekki hissa ef tvisvar, þrisvar, jafnvel fjórum sinni fleiri hafi orðið fyrir veirunni nú. En þetta er ágiskun, eða kenning. Það sem skiptir máli er það sem kemur út úr rannsókninni.“

Vegna þess hve margir hafa greinst með veiruna telur Kári ekki þörf á jafn stóru þýði nú og þurfti síðast. 500 til 1.000 manns ættu að duga og segir hann að ef að líkum láti séum við með „tíðni sem er upp undir 20% af samfélaginu“. Hann ítrekar þó að hans „ágiskanir og skoðanir séu ekki mikils virði“ og segist hann, í hálfgerðu gríni, raunar hljóta að eiga „einhverskonar heimsmet í að koma með ágiskanir sem reynast rangar“.

Skipulagið eflaust með svipuðum hætti og síðast

Eins og áður segir er rannsóknin framkvæmd af Íslenskri erfðagreiningu en þó í samvinnu við sóttvarnalækni og í hans umboði. Fyrirtækið kemur inn að sögn Kára með sérþekkingu og getu og sjái því um framkvæmdina.

Þó ekki liggi fyrir endanlegt skipulag framkvæmdarinnar segir Kári ekki ólíklegt að það verði með afar svipuðu sniði og síðast. Fólk yrði þá boðað í þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna í turninum í Kópavogi og þar verði dregið blóðsýni úr fólki.

Þá vonast hann til þess að sami háttur verði á nú eins og síðast að þeir fái send inn afgangs blóðsýni af landsbyggðinni sem notuð voru í öðrum tilgangi fyrst.

Turninn í Kópavogi baðaður í skýum.
Turninn í Kópavogi baðaður í skýum. Árni Sæberg

Gæti haft áhrif á aðgerðir

Spurður út í grófan tímaramma segir Kári: „Ég vona heitt og innilega að við getum lokið þessu öðru hvorum megin við þar næstu helgi en það ræðst af vilja fólks til þess að taka þátt. Ég reikna nú alveg með því að fólk sé orðið aðeins þreytt á þessu ástandi og margir vilji fremur fara í bíó heldur en að láta draga úr sér blóð í rannsóknarskyni. En ég vona að þetta gangi hratt og örugglega fyrir sig.“

En gætu þá niðurstöðurnar breytt landslaginu hér hvað varðar faraldurinn?

„Ekki þegar kemur að pestinni sjálfri nei. En þetta gæti breytt þeim aðferðum sem við notum til þess að takast á við hana, svo sem sóttkví, einangrun og hvernig við tökumst á við skólastarf svo eitthvað sé nefnt.“

Þeir sem eru með puttann á púlsinum í faraldsmálum mega því vera ögn spenntir?

„Já ég reikna með því að það sé fullt af fólki sem klæi í puttana að sjá hversu víða veiran hefur farið. Það er svo spurning hvort það nægi til þess að laða fólk að með þeim hraða sem við vonumst til.“

mbl.is