Siðfræðistofnun skoðað fjáröflun spilakassa

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir Happdrætti Háskóla Íslands hafa reynst skólanum gríðarlega mikilvægt frá stofnun þess árið 1933. Á þriðja tug bygginga hafa verið kostaðar af happdrættisfé, sem gera nær allar byggingar stofnunarinnar.

Hann telur umræðuna, um hvort HÍ eigi að halda áfram að nýta rekstri spilakassa til fjáröflunar, flókna en að verið sé að skoða leiðir um hvernig hægt sé að minnka skaðann sem af þeim hlýst.

Hafi hann þá til að mynda skipað starfshóp um þessa fjáröflun og hafa tillögur þeirra, sem kveða meðal annars á um spilakort, verið ræddar í háskólaráði.

Skoða stöðuna

„Þegar þetta var sett á laggirnar þá var þetta skoðað mjög vandlega, þar á meðal af Siðfræðistofnun að beiðni þáverandi rektors. Við erum bara að skoða þessa stöðu og tökum við ábendingum ytri og innri aðila,“ segir Jón Atli í samtali við mbl.is.

Tæplega 300 starfsmenn HÍ hafa sett nafn sitt á undirskriftalista þar sem þess er krafist að skólinn hætti að nýta rekstur spilakassa sem fjáröflunarleið. Kristján Jónasson, prófessor í stærðfræði við HÍ og einn þeirra sem kom undirskriftarlistanum á laggirnar, segir spilafíkn leggja líf fólks í rúst og telur réttast að loka spilakössum.

Stutt háskólann dyggilega

Að sögn Jóns Atla hefur Happdrættið stutt háskólann dyggilega og skilað miklu til þróunar háskólastarfsins og menntunar innanlands.

Þá vekur hann einnig athygli á því að miklar fjárhæðir renni til erlendra aðila á hverju ári vegna spila á netinu þar sem fjárhæðir eru undir. Er þetta eitthvað sem háskólinn hefur ítrekað bent á.

„Það þyrfti að huga að jafnvægi þar og að íslenskir aðilar njóti þess frekar í stað þess að fjármagnið renni úr landi.“

Ef ég er að skilja þig rétt, þá þykir skömminni skárra að peningurinn renni í góðan málstað en út fyrir landsteinana?

„Það var þannig sem hugsunin var með Happdrætti Háskólans á sínum tíma. Þá voru peningarnir að renna út úr landinu og þá var ákveðið að setja happdrætti til þess að fara í byggingar fyrir Háskóla Íslands. Það var stofnað árið 1933.“

Hægt að nota spilakort til að takmarka fjárhæðir

Hann segir þó mikilvægt að vanda sig þegar kemur að þessu máli og að háskólinn taki þetta mjög alvarlega. 

„Við erum í samskiptum við stjórnvöld og viljum bara tryggja það að við fáum líka stuðning til þess að byggja okkar byggingar. En þetta er bara tiltölulega flókið mál.“

Má vænta einhverra breytinga í náinni framtíð á þessu fyrirkomulagi?

„Við erum í samstarfi við stjórnvöld að skoða þetta og við erum búin að fara í okkar vinnu. Happdrætti Háskólans hefur farið yfir þetta og telur eðlilegt að tekin séu upp spilakort og þá er hægt að takmarka hversu miklar fjárhæðir viðkomandi getur ráðstafað í þessum spilum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert